150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og þingmenn hafa tekið eftir nær nýja frumvarpið að sjálfsögðu utan um starfsnám. Á Íslandi eru allt önnur útskriftarhlutföll úr námi en annars staðar í Evrópu. Á Íslandi klára um 70% háskólastigið en 30% klára starfsnámið. Í Finnlandi er þessu akkúrat öfugt farið og í Evrópu er hlutfallið í kringum 50/50. Það er alveg ljóst að uppbyggingin er ekki sérlega góð fyrir samfélagið og þá eftirspurn sem er í hagkerfinu eftir vinnuafli. Við þurfum að einblína meira á það. Ég tek undir það að við þurfum að skoða betur aðfaranámið og þessi réttindi. Ég þekki það líka að sumir fara í aðfaranám í HÍ, komast þá jafnvel ekki í Háskólann á Akureyri og ég verð bara að segja, hv. þingmaður, að mér finnst það sérstakt. Ég er til í að fara í þá vegferð með hv. þingmanni að skoða það betur.