150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er merkilegt frumvarp um merkilegan sjóð, merkilegt framtak sem hefur gegnt miklu hlutverki í íslensku samfélagi, kannski meira hlutverki en við hugsum alltaf út í vegna þess að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur þann tíma sem hann hefur starfað — og svo sem tekist misjafnlega upp — verið, eins og það heitir, félagslegur jöfnunarsjóður. Hann hefur haft félagslegt jöfnunarhlutverk. Sem slíkur hefur hann stuðlað að byltingu í íslensku samfélagi, ekki bara lífskjarabyltingu heldur líka menningarbyltingu. Hann hefur breytt íslensku samfélagi á mjög róttækan hátt. Hann hefur gert að verkum að börn frá efnaminni heimilum, börn sem ekki áttu þess kost að mennta sig fyrir nokkrum áratugum síðan, hafa komist til mennta og þau mynda uppistöðuna í samfélagi okkar í dag. Það er ekki síst verk þessa sjóðs. Þessi sjóður er í vissum skilningi fjöregg.

Það er margt jákvætt við þetta frumvarp, svo ég fari á hundavaði í gegnum það á þeim skamma tíma sem mér er mældur hér — og síðan gefst kostur á því að skoða frumvarpið betur, bæði í nefnd og innan flokks og í 2. umr. Það er mjög jákvætt að það eigi að veita styrki vegna framfærslu barna, svo ég nefni það alveg sérstaklega. Það er mjög jákvætt að það verði hægt að fá útborgun mánaðarlega og svo er það líka jákvætt að lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tiltekins tíma geti fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námslánsins ásamt verðbótum að loknu námi.

Varðandi námsstyrkina verð ég þó að segja að ég óttast dálítið hvernig þeir eru fjármagnaðir. Hér er ákveðið hvatakerfi, ákveðið umbunarkerfi. Það er verið að umbuna fyrir góðan árangur en ég óttast að það sé fjármagnað með þeim sem kannski ná ekki jafn góðum árangri. Þeir nemendur sem ýmissa hluta vegna geta ekki lokið námi á svo skömmum tíma og þurfa lengri tíma og þurfa þá að sæta verri kjörum í sínum endurgreiðslum.

Annað sem mér þykir vera athugunarvert og ég geri athugasemdir við, og ekki bara ég heldur fjölmargir aðilar sem hafa þegar sent inn umsagnir, er það fyrirkomulag að gefa lánþegum kost á því að greiða með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi. Þarna er verið að markaðsvæða þennan sjóð. Svo er þetta álag sem ég kannski vík betur að síðar. Það er jákvætt að námslán skuli greidd með mánaðarlegum afborgunum og séu endurgreidd að fullu við 65 ára aldur. Það er ekki seinna vænna að vera búinn að greiða upp námslánin sín. En ég hef efasemdir um þetta mark með 35 ára aldurinn, þ.e. að geta valið um að endurgreiða námslánin með tekjutengdum afborgunum ef námslokin séu við 35 ára aldur. Þetta kann að líta nokkuð vel út en ég hef áhyggjur af eldra fólki sem er á lágum tekjum og vill bæta stöðu sína í lífinu og ég tel að þetta þrengi möguleika þess fólks.

Ég vil líka að setja þetta í samhengi, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, við fjórðu iðnbyltinguna og þörfina á símenntun. Við munum sjá fram á að fólk mun í æ ríkara mæli fara í nám á öllum stigum ævinnar. Það þarf náttúrlega einhvern veginn að fjármagna það nám og ég held að ef vel tekst til muni tekjur fólks aukast og það á að geta getað staðið þannig skil á sínum lánum.

Það eru hvatar í þessu frumvarpi sem ég held að séu ágætir, þ.e. að ráðherra geti veitt vissar ívilnanir út af tilteknum námsgreinum þar sem er þörf fyrir fleira fólk. Eins held ég að byggðahvatar hafi gefið góða raun, t.d. í Noregi, og séu jákvæð viðleitni. Það er því ýmislegt jákvætt við þetta.

Það er eitt sem ég var að hugsa í sambandi við þessar ábyrgðir sem falla niður, ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum sem eru teknar í tíð eldri laga. Það er talað um að þær falli niður við gildistöku þessara laga, enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Eins með ábyrgðir ábyrgðarmanns sem falla niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við sjóðinn. Nú er það svo, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson benti á, að fólk getur lent í ýmsum áföllum í lífinu og jafnvel verið í vanskilum af ýmsum ástæðum og fólk getur átt aðstandendur sem hafa verið í námi sem lenda í vanskilum og erfiðleikum í lífinu og falla jafnvel frá og þá stendur kannski aldraður aðstandandi uppi með alls konar skuldir, þar á meðal háar og erfiðar námslánaskuldir sem eru jafnvel í vanskilum. Mér finnst það kannski ekki alveg sanngjarnt. Það má alla vega velta því upp hvort ekki megi einhvern veginn nálgast fólk sem þannig háttar til um.

Styrkjakerfið er tvímælalaust skref í rétta átt. Eins og fyrr var getið er jákvætt að fá námslánið mánaðarlega og ekki þarf heldur að hafa mörg orð um það að það er líka jákvætt að gera betur við fólk með börn. Mér finnst að það eigi nú að standa í 1. gr. frumvarpsins að sjóðurinn sé félagslegur jöfnunarsjóður vegna þess að það er grundvallaratriði.

Það sem veldur manni sem kominn er á minn aldur dálitlum áhyggjum er óvissa um vaxtastigið. Bæði samtök stúdenta, BHM og ASÍ hafa gagnrýnt harðlega þessar fyrirhuguðu vaxtahækkanir og það kemur fram í greinargerð að ekki hafi verið hægt að bregðast við athugasemdum, í samráðsgátt, um vexti þar sem forsenda þess að lánakerfið gangi upp sé sú, eins og þar segir, „að kerfið standi undir sér“. Ég er ekki viss um að ég geti fallist á þessa forsendu fortakslaust. Ég er ekki viss um að þetta kerfi eigi endilega að vera sjálfbært að öllu leyti og mér finnst hækkun vaxta á námslánum eiginlega vera óboðleg. Ég verð að segja það. Í núverandi kerfi er það svo að vextir hafa bara verið 1% en þeir eiga sem sagt að vera hærri. Þeir eiga að vera breytilegir og án þaks, án hámarks. Þarna verður til ákveðin óvissa fyrir lánþega og við getum ekki gert ráð fyrir því að það sé alltaf jafn gott efnahagsástand og nú. Eins og ég sagði áðan þá man fólk sem komið er á minn aldur að íslenskt efnahagslíf er ákaflega sviptivindasamt og vextir bera þess sífellt merki. Ofan á vextina á svo að koma álag til að bregðast við afföllum og það á að vera á bilinu 0,6–0,8%. Þetta mun hafa mikil áhrif á stúdenta og það er ekki ásættanlegt að vextir námslána geti hækkað og lækkað jafn ófyrirsjáanlega og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa sem er síbreytileg stærð.

Ég hefði haldið mun farsælla að hafa þak á þessum vöxtum og held að 1% sé ágæt tala fyrir þakið. Álagið á að ákveða í úthlutunarreglum hvers árs og það er talað um að ef verðtryggðir vextir fari með álagi yfir 4% og óverðtryggðir yfir 9% skuli skipuð nefnd og hún á að gera tillögu til ráðherra um breytingar en ráðherra er reyndar ekki skylt að fara eftir því sem kæmi út úr þeirri nefnd. Og við getum ekki alltaf treyst því að ráðherrar séu jafn áhugasamir um menntun og jákvæðir í garð menntunar stúdenta og hæstv. núverandi ráðherra er svo sannarlega. Mér finnst ekki nógu gott úrræði að skipa nefnd sem geri tillögu til ráðherra sem ráði því hvort hann fari svo eftir tillögum nefndarinnar. Það er gengið dálítið langt í að velta markaðsáhættu yfir á launþega og mér finnst að það gangi gegn hinu félagslega jöfnunarhlutverki sem sjóðurinn hefur.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í yfirlýsingu Stúdentaráðs sem kom til okkar þingmanna fyrr í dag og mér finnst ná að fanga dálítið vel kjarnann í því sem ég er að reyna að segja. Stúdentaráð segir í yfirlýsingu sinni, með leyfi forseta:

„Ítrekað er vísað til þess að vaxtafyrirkomulagið sem boðað er sé forsenda þess að nýtt kerfi gangi upp og að þessu markmiði verði náð. Þessu markmiði má ekki vera stillt skörinni ofar en hagsmunum stúdenta. Að mati Stúdentaráðs eru rök um sjálfbærni lánahlutans samhliða markaðsvæðingu vaxtakjara yfirklór yfir þá staðreynd að enginn vilji er til staðar til að auka námsstuðning á Íslandi, enda miðar frumvarpið einungis að því að dreifa þeim stuðningi sem þegar er til staðar á jafnari hátt. Tekjur ríkissjóðs af nýja kerfinu geta verið u.þ.b. 1–3 milljarðar króna á ári samkvæmt mati um þjóðhagslegan ávinning af kerfinu, unnið af Summu ráðgjöf ehf. Á sama tíma standa útgjöld ríkisins til námslánakerfisins í stað. Hér er því glatað færi ríkisins á að fjárfesta í menntun og eftir stendur að stúdentar landsins njóta ekki góðs af tekjuaukningu ríkissjóðs sem námslánakerfið mun skila.“