150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að hér eru talsverðar breytingar og verið að taka mörg jákvæð skref. Það er alveg ljóst að þetta er félagslegur jöfnunarsjóður og hann verður það enn frekar eins og staðan er í dag. Ég vil bara nefna það að í gamla sjóðnum er það þannig að fyrir hæstu lánin var styrkhlutfallið nálægt 85%. Fyrir lægstu lánin var styrkhlutfall ríkisins 5%. Nú verður miklu meiri jöfnuður í þessum nýja sjóði þannig að ég bið hv. þingmann að skoða það aðeins betur.

Varðandi yfirlýsinguna sem hv. þingmaður vitnaði í þætti mér fróðlegt að vita hvaða hagnaður það ætti að vera. Þegar Summa reiknar út þjóðhagslegan ávinning er það þjóðhagslegur ávinningur, ekki hagnaður ríkissjóðs, þ.e. að námsframvinda verði aðeins betri, enda erum við aðeins á eftir. Við erum lengur í háskólanámi en samanburðarríki. Það kann að vera, og ég myndi vilja ræða það við stúdenta, einhver misskilningur hér á ferð. Þarna var um að ræða þjóðhagslegan ávinning af því að samþykkja nýjan menntasjóð en alls ekki að ríkissjóður sé að reyna að hagnast með nýjum sjóði, enda mun ríkissjóður áfram greiða milljarða og aftur milljarða inn í menntasjóðinn. Við vitum ekki nákvæmlega hversu mikill sá stuðningur verður. Hann kann að hækka verulega vegna þess að námslán hafa dregist svo rosalega saman í núverandi kerfi. Ég held að við ættum frekar að spyrja okkur hvort núverandi kerfi stuðli að raunverulegu jafnrétti til náms. Ég set stórt spurningarmerki við það miðað við hver þróunin er. (Forseti hringir.) En það kann að vera að þetta sé misskilningur, við skulum bara fara yfir það.