150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:41]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get náttúrlega ekki svarað fyrir útreikninga Summu ehf. Við tökum bara þeim tölum sem þaðan koma eins og þær berast okkur og ég í sjálfu sér hef ekki ástæðu til að ætla að Stúdentaráð misskilji þær tölur eða hvað liggi þar að baki. En aðalatriðið finnst mér nú samt vera — og ég er ánægður með að við hæstv. ráðherra deilum því sjónarmiði — að ég tel að þetta eigi fyrst og fremst að vera félagslegur jöfnunarsjóður. Sem slíkur á hann ekki að vera rekinn þannig að fyrst og fremst sé hugsað um að hann standi undir sér, hann sé sjálfbær eða hafi hagnaðardrifin sjónarmið, sjónarmið um að öll framlög eigi fyrst og fremst að borga sig. Það er aldrei hægt að leggja endanlegt mat á það hvað borgar sig fyrir samfélagið og á hvern hátt.

Ég óttast þessi áform um að hækka vexti og hafa þá breytilega, hafa „óvissuvexti“, í ljósi reynslu okkar Íslendinga af efnahagsmálum og ég óttast þau í ljósi þess að við búum við óstöðuga krónu. Við búum við mikla óvissu um framtíðina í okkar efnahagsumhverfi, hvað sem kann að líða efnahagsumhverfinu eins og það er hér og nú.