150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við óttumst alltaf framtíðina leggjum við ekki á okkur að fara í nein framfaramál. Ef við erum alltaf hrædd, þá gerum við engar breytingar. Ég skil það vel að menn hafi áhyggjur af því að vextirnir séu að breytast. Það er hins vegar vaxtaþak. Ef verðtryggðir vextir ásamt föstu vaxtaálagi fara yfir 4%, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, verður skipuð nefnd til að fara yfir það. Það er alveg ljóst að við þjóðin eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta að hér séu vextir lágir og skuldastaða ríkissjóðs það góð að hægt sé að fara í þessar kerfisbreytingar.

Ég vil líka taka það fram að við erum auðvitað að búa núna til menntasjóð sem er mun sanngjarnari. Lítum bara á þessi dæmi sem ég nefndi. Sumir eru tíu árum fljótari að greiða sínar skuldir en í gamla kerfinu og það munar gríðarlega um 30% niðurfærslu sem kemur strax. Hér er ekki verið að ræða um að ríkissjóður hagnist. Ríkissjóður mun áfram setja milljarða í sjóðinn og það mun líklega verða aukning vegna þess að það hefur ekki verið sami áhugi og áður á að taka lán vegna þess að fólki hefur fundist það vera ósanngjarnt. Nú erum við að breyta sjóðnum. Hann verður mun gagnsærri. Við erum komin með beinan styrk og ég er ekki í nokkrum vafa um það að staða þeirra sem fara í nám verður mun betri en áður hefur verið og með félagslegan jöfnuð að leiðarljósi.