150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:48]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna þessu frumvarpi sem hefur litið dagsins ljós um Menntasjóð námsmanna sem er nýtt nafn á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem hefur verið starfræktur í nærri 60 ár. Lánasjóðurinn hefur verið mjög mikilvægur og ég er sammála hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni um að hann hafi breytt íslensku samfélagi. Þarna var komin leið fyrir efnalitla námsmenn að leita sér menntunar, það voru kannski bara ákveðnar fjölskyldur sem gátu staðið undir því að mennta börnin sín. En það hefur verið kallað eftir því svolítið lengi og frá því að ég var í grunnskóla og menntaskóla fór maður að heyra ákall um að breyta fyrirkomulaginu og breyta ýmsum áherslum sjóðsins. Mér sýnist að með þessu frumvarpi séum við loksins að stíga skref í átt til metnaðarfullra breytinga. Auðvitað eru þetta tillögur sem eiga eftir að fara í þinglega meðferð og við getum alveg komið fram athugasemdum. Ég trúi því að sú nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta verði gagnrýnin í hugsun og veiti aðhald og komi kannski með betri tillögur ef þær eru til. En ég tel þetta vera mjög gott frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur lagt mikla vinnu í og ég verð að segja það henni til hróss að þetta hefur fyrrverandi menntamálaráðherrum ekki tekist af neinu viti hingað til þó að margir hafi reynt.

Hlutverk lánasjóðsins er samkvæmt lögum að gefa námsmönnum tækifæri til að mennta sig án tillits til efnahags en það hefur nær einungis snúið að hagstæðum lánum en ekki styrkjum. Eins og kerfið er í dag er fyrirkomulagi námslána þannig háttað að mögulegt er fyrir lánþega að skuldsetja sig umfram getu til að endurgreiða lánin, svo að ekki sé talað um fólk með börn sem hefur setið uppi með enn hærri námslán eftir námsárin. Og þó að ég sé ekki komin á sama heiðarlega og virðulega aldur og hv. þingmaður sem var hér í pontu fór ég í nám með fjögur börn og tók námslán og fékk hærri námslán sem því nemur, vegna þess að ég var með fullt hús af börnum, og sit svo uppi með hærri námslán þess vegna. Ég held því að þetta skipti gríðarlega miklu máli og sé tækifæri sem við getum nýtt okkur.

Áratugum saman hafa íslenskir námsmenn barist fyrir betri kjörum, auknum réttindum námsmanna og jöfnum tækifærum til náms. Á undanförnum árum hafa þeir jafnframt kallað eftir bættu námslánakerfi og auknum fjárhagslegum stuðningi við nám sitt frá íslenska ríkinu. Frumvarp þetta miðar að því að jafna stuðning og dreifingu á ríkisstyrkjum til lánþega með félagslegum stuðningssjóði og með því að koma á hvatakerfi til námsmanna að klára sitt nám á tilsettum tíma. Þó veit ég að það á að vera eitthvert svigrúm þegar eitthvað kemur upp á, að hægt sé að taka tillit til þess.

Frumvarpið hefur í för með sér kerfisbreytingar á núverandi námsaðstoðarkerfi. Með þeim kerfisbreytingum má gera ráð fyrir bættri námsframvindu námsmanna sem mun stuðla að betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni í framtíðinni. Breytingarnar munu m.a. hafa í för með sér að námsaðstoð ríkisins verði gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verði efld og aukið jafnræði verði meðal lánþega.

Þá er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp ákvæði um námsstyrki en slík ákvæði var að finna í eldri lögum um námslán allt til setningar gildandi laga árið 1992. Þessu kerfi mun með þeim hætti svipa meira til norrænna námsstyrkjakerfa og eftir því hefur verið kallað. En það er fleira í þessu frumvarpi sem er nýmæli, t.d. felst ákveðinn námsstyrkur í 30% niðurfærslu höfuðstólsins ef námi er lokið á tilsettum tíma, og svo þessi beini stuðningur við framfærslu barna. Eins og hefur komið fram verður meginreglan sú að námslán verði greidd með mánaðarlegum afborgunum. Ég held að þetta skipti svolitlu máli því að tvær stórar afborganir í mars og september geta verið íþyngjandi, þá er hægt að dreifa þessu. Það skiptir líka máli að ábyrgðin sé látin falla niður. Þetta er kannski það helsta sem við höfum fengið gagnrýni fyrir, þ.e. þessi ábyrgð og að jafnvel sé verið að kalla menn úr kirkjugörðum landsins til ábyrgðar á námslánum, við þekkjum sögur af því, og erfingja þeirra.

Svo er heimild um tímabundnar ívilnanir í frumvarpinu og mitt dreifbýlishjarta tók aukaslag og sló hraðar þegar ég sá það, sem ég hafði svo sem fengið veður af. Í 28. gr. er talað um að ráðherra sé heimilt með auglýsingu að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun. Það þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum til stjórnvalda um þörf á menntuðu fólki í heimabyggð sinni. Þetta er nýmæli sem mér finnst mjög athyglisvert að sjá hvað kemur út úr. Greinin er nýmæli en í henni er heimild til að veita þessa tímabundnu ívilnun og gefa ráðherrum tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Þetta er að norskri fyrirmynd og þessu hafa Framsóknarmenn barist fyrir og sérstaklega fyrir síðustu kosningar og ég fagna því sérstaklega að þetta sé hér inni. Þetta hefur svo sem sést, en þá sem styrkir frá sveitarfélögunum sjálfum. Fyrir 20 til 30 árum varð stökkbreyting í grunnskólum landsins í hinum dreifðu byggðum hvað varðar menntaða kennara og það var því að þakka að sveitarfélögin fóru í átak við að styrkja kennaranemendur í þessum greinum, ásamt flutningsstyrkjum og fleiru sem er vissulega ívilnun af því að við viljum halda uppi ákveðnum standard um allt land.

Ívilnanir af þessu tagi geta líka nýst í heilbrigðisgeiranum þar sem skortur er á ákveðnum fagstéttum um allt land, ekki bara úti á landi heldur um allt land. Þetta hefur staðið greininni fyrir þrifum og eykur mjög álagið á þá sem standa í stafni. Mig langar til að nefna þetta sérstaklega því að hér er um að ræða atriði sem við í Framsóknarflokknum höfum lagt áherslu á og þarna horfum við til þess sem gert er í Noregi.

Ég óska allsherjar- og menntamálanefnd velfarnaðar í því að vinna með þetta metnaðarfulla frumvarp sem ég vonast til að verði svo að lögum og að við horfum á framtíðina í menntamálum á nútímalegan og styðjandi hátt.