150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka það skýrt fram að við erum að veita lán er varðar starfsnám. Það var í gamla kerfinu og það er líka í nýja kerfinu og við höfum einnig verið að forgangsraða fjármunum á framhaldsskólastiginu í þágu starfsnáms með því t.d. að stuðla að betri tækjakosti. Eg heyri það á skólameisturum og öðrum á framhaldsskólastiginu að þeir tala um að veruleg breyting hafi átt sér stað er varðar fjármögnun starfsnáms á síðustu tveimur árum og ég fagna því. En mér finnst mjög mikilvægt að við séum alltaf á tánum hvað þetta varðar vegna þess að við sjáum að við erum með allt önnur hlutföll, eins og ég hef nefnt hér, er varðar starfsnám og bóklegt nám á Íslandi og við þurfum að taka þetta til okkar og við erum að gera það. Ég var mjög ánægð að sjá að 32% aukning er hjá Tækniskóla Íslands á milli ára sem segir okkur að við erum að beina sjónum okkar í auknum mæli að starfsnáminu. En ég get fullvissað hv. þingmann um að tekið er tillit til þess í þessu Menntasjóðsfrumvarpi.