150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:49]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir minntist á það í ræðu sinni hér rétt undir lokin að hún þakkaði velferðarnefnd fyrir vel unnin störf í meðferð þessa máls núna á síðastliðnu þingi og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í viðbrögð hennar við þeim óskum sem komu frá velferðarnefnd þar sem allir meðlimir velferðarnefndar skrifuðu undir nefndarálit þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúkdóms“ — Þ.e. sjúkdóms sem nefndin telur langt leidda fíkniefnaneytendur hafa — „Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna var sú leið sem velferðarnefnd lagði eindregið til ekki farin?