150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og þá sér í lagi það sem kom fram undir lokin í máli hennar um að langt leiddir vímuefnaneytendur séu jafnvel með nokkra skammta á sér. Ef ég skil þetta frumvarp rétt er ætlunin að gefa heimild til vímuefnanotenda sem ætla að nýta sér þetta rými til að hafa á sér það sem þeir munu nota í rýminu. Ég velti fyrir mér hvort þetta rími við það sem hæstv. ráðherra var að segja um að þeir séu oft og tíðum með nokkra neysluskammta á sér, með þá skammta sem þeir ætla að nota út daginn. Hvernig á að vinna úr því ef það stendur kannski til bara að fá sér einn skammt í neyslurýminu og svo annan síðar en þeir ganga með alla skammtana á sér? Er nægilega tryggt með þessari formúleringu að við séum ekki jafnvel að gefa hvata til þess að notendur noti meira en tilefni sé til vegna þessarar heimildar? Ef það má bara taka með sér það sem á að nota, er þá ekki hvatinn að vera búinn að nota það? (Forseti hringir.) Sérstaklega ef lögreglan bíður fyrir utan. Má þá vera með einn skammt í viðbót meðferðis?