150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, um neyslurými. Eftir lestur frumvarpsins er fyrsta spurningin: Við erum að gefa heimild til sveitarfélaga en hver tekur á sig kostnaðinn? Er það ríkið eða sveitarfélagið eða er honum skipt? Við erum að tala um sveitarfélög og ég reikna með að stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu þau einu sem hafa efni á því að gera eitthvað í þessum málum. En ég er að spá í minni sveitarfélög. Ég tel þetta vera heilbrigðisvanda, eitthvað sem ríkið á að taka á, með aðstoð sveitarfélaga til að fá aðstöðu fyrir þessi rými. En ég spyr: Hvernig sér ráðherra fyrir sér kostnaðarskiptinguna?