150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir seigluna, fyrir að leggja þetta frumvarp fram aftur, enda er að mínu mati um að ræða mjög mikilvægt mál. Ég mun ekki liggja á mínu liði í hv. velferðarnefnd til þess að greiða leið þessa máls því að hér er um að ræða mannúðlega stefnu. Skaðaminnkun er slík stefna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beina sínum frómu mannúðarsjónum einnig að öðrum hópum í samfélaginu, t.d. þunguðum konum á flótta, svo það sé sagt hér, af því að hæstv. ráðherra var ekki stödd hér í dag þegar við ræddum um það.

Fíklar eiga rétt á mannúðlegri meðferð og mig langar að fá það alveg á hreint: Hvort sem um er að ræða neyslurými á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu, ef t.d. Akureyrarbær (Forseti hringir.) ákveður að setja upp neyslurými hjá sér, mun þá einnig vera gert ráð fyrir að ríkið fjármagni (Forseti hringir.) heilbrigðisþátt þessarar starfsemi?