150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var leiðinlegt að vera ekki hérna í dag en það vildi svo heppilega til að ég heyrði störf þingsins þar sem ég var að bíða eftir því að komast að með þetta mál. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þungaðar konur á flótta eiga skilið mannúðleg sjónarmið. Það er þannig. Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að vera jákvæð gagnvart þessu máli og þeirri hugmyndafræði sem lögð er til grundvallar, sem er mannúð og skaðaminnkun. Ég vil líka segja að það er auðvitað mikilvægt að þarna gerum við í raun og veru ráð fyrir og það liggur fyrir að samstarf er væntanlegt milli Reykjavíkurborgar og ríkisins hvað varðar þetta mál. Ef til þess kæmi að fleiri sveitarfélög tækju þátt, sem væri væntanlega Akureyrarbær í ljósi mannfjöldans, myndum við auðvitað skoða það. Þarna er um að ræða samstarfsverkefni. Það er ekkert hægt að horfa á það öðruvísi, þetta er samstarfsverkefni ríkisins sem er með heilbrigðisþjónustuna annars vegar og hins vegar félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags.