150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir andsvarið og ekki er síður gott að heyra afstöðu hennar til þungaðra kvenna á flótta sem þurfa svo sannarlega á einhvers konar vernd stjórnvalda að halda og að við gefum þeim gaum á síðustu og verstu tímum. En að þessu mjög svo góða frumvarpi. Maður veltir fyrir sér þessum 50 milljónum. Núna er staðan í heilbrigðiskerfinu eiginlega alls staðar, hvort sem um er að ræða Landspítala eða hjúkrunarheimili um landið eða aðra sjúkrahúsþjónustu víða um land, að það er glímt við mjög mikinn niðurskurð. Þá veltir maður fyrir sér hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi í rauninni gefið grænt ljós á þá tölu sem nefnd hefur verið hér, þ.e. 50 milljónir, í þetta verkefni.