150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Eðli málsins samkvæmt er hér um að ræða mál þar sem við erum að ryðja brautir og taka skref inn í algerlega nýjan veruleika. Við höfum ekki áður verið með þingmál af þessu tagi. Í því ljósi þarf auðvitað að eiga mjög víðtækt samráð og tala við marga sem þekkja þá tilveru best og það eru auðvitað þeir sem sjálfir neyta efna með þessum leiðum. En það hefur líka komið fram í samskiptum við SÁÁ að SÁÁ fagnar öllu því sem getur hjálpað því fólki sem er til umræðu. Ef einstaklingur er ekki meðferðartækur, svo sem vegna heilaskaða, veitir SÁÁ viðhaldsmeðferð nú þegar sem er skaðaminnkandi úrræði og er gamla Metadón-aðferðin. Þannig að þessi hugmyndafræði er í raun og veru hluti af þeirri hugmyndafræði sem SÁÁ byggir á. Við erum algerlega í takti í því sem er til umræðu.