150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Staðreyndin er sú að ég er búin að vera í sambandi við SÁÁ og hef verið að reyna að afla mér upplýsinga og þekkingar á því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur sem hæstv. ráðherra segir að hafi sérstaklega verið litið til þegar komið var á fót neyslurýmum. Þar er neyslumunstrið gjörólíkt. Þar er aðallega um heróínneytendur að ræða sem sprauta sig tvisvar á dag. Við erum með þá sem sprauta sig með örvandi efnum, amfetamíni og öðru slíku, sem sprauta sig allt að tíu sinnum á dag. Þeir einstaklingar þurfa þá væntanlega að halda sig í námunda við neyslurýmin.

Það er líka annað sem vefst fyrir mér. Mér finnst við einhvern veginn vera að mismuna fíklum yfir höfuð, þeim sem eru haldnir fíkn. Hvað þýðir það að vera á einhverju „free zone“, öruggu svæði í kringum neyslurými? Verður ekki að afmarka það skýrar? Verðum við ekki að vera með reglurnar mun skýrari þannig að það fari ekki á milli mála? Er hægt að semja við lögregluna? Geta sveitarfélag samið við lögregluna um að snúa blinda auganu að því sem nú er lögbrot? Er ekki ástæða til þess að við virkilega styrkjum löggjöfina í kring þannig að ekki verði árekstur þarna?