150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að halda ræðu um skaðaminnkun í tilefni af framlagningu þessa frumvarps í annað sinn. Ég finn mig þó knúna til að bregðast aðeins við þeirri umræðu sem hefur átt sér stað fram að þessu um þetta mál til að byrja með og þá kannski sérstaklega við ummælum hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur hvað varðar skilgreiningu á neysluskömmtum og þær spurningar sem við velkjumst um með, um hvort hægt sé að skilgreina neysluskammta eða hvort við þurfum að fara einhverjar aðrar leiðir, um vandann sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að því. Hæstv. ráðherra vísaði í dæmi hjá Norðmönnum sem hafi lent í vandræðum með að skilgreina neysluskammta. Ég fæ hins vegar ekki betur séð í greinargerðinni en að þeir séu einmitt með það í vinnslu að afglæpavæða neysluskammta. Þeir hafa bara ekki getað gert það í samræmi við löggjöfina um neyslurými. Það er svo sem gott og blessað og frábært að þeir komi því í lag.

Mér finnst mikilvægt að við tökum upp þann hugsunarhátt hér líka vegna þess að ég held að það sé ekki í lögum hægt að skilgreina nákvæmlega neysluskammt fyrir hvert einasta vímuefni á markaði, heldur er það miklu frekar að lögreglan og ríkissaksóknari fái skýr fyrirmæli um að hætta að eltast við fólk vegna neysluskammta. Þá strax ætti hugarfarið að breytast hjá lögreglunni. Þegar kemur að efnum ætluðum til sölu kemur ýmislegt annað til sem bendir til þess að efnin séu ætluð til sölu frekar en eigin neyslu. Ef það eru einhver vafamál er það dómstóla að skera úr um hvort eigi við. Þá kemur mjög margt fleira til sönnunar en einfaldlega magn efnanna sjálfra. En það er kannski umræða sem á betur heima í frumvarpi okkar Pírata um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna sem ég tel mjög mikilvægt innlegg og mjög mikilvægt að fái brautargengi samhliða þessu frumvarpi vegna þess að við leggjum upp með að það sé ákveðin áhætta að hafa einungis ákveðin svæði og hafa þær skilgreiningar sem eru þarna inni. Mér er alla vega til efs að það dugi til að vernda þennan viðkvæma hóp.

Annað sem mig langaði að ræða er orðanotkun. Mér þykir mikilvægt þegar við erum að horfa til aukinnar mannúðar gagnvart þessum hópi, þegar við erum að tala um skaðaminnkandi úrræði, mannvirðingu og mannúð o.fl. að við íhugum orðaval. Ég óska eftir því að hv. þingmenn íhugi orðanotkun sína. Í staðinn fyrir að segja sprautufíklar má t.d. segja einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð og hætta þannig að viðhafa mjög svo neikvæða merkingu um þá einstaklinga sem þeir segjast vera að hjálpa með þessu frumvarpi. Sömuleiðis þarf ekki að kalla allt fólk sem á við vímuefnavanda að stríða fíkla. Það er heldur ekki alltaf vandamálið. Oft er líka talað um einstaklinga með vímuefnavanda.

Þá er ég búin að koma því frá og get snúið mér að því sem mér finnst svo merkilegt og frábært við þetta frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra sem er hin skaðaminnkandi nálgun sem þar er að finna. Ég hef mikið hugsað og töluvert skrifað niður hjá mér um skaðaminnkun. Mig langaði að ræða hana aðeins.

Upphaflega má finna hugmyndina um skaðaminnkun sem andsvar við alnæmisfaraldrinum sem braust út meðal vímuefnanotenda sem sprautuðu sig á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Nú til dags vísar skaðaminnkun til stefnu, úrræða og aðgerða sem vinna að því að minnka neikvæð, heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif af neyslu ólöglegra vímuefna án þess að endilega stefna að minnkun vímuefnaneyslunnar. Dæmi um skaðaminnkun er verkefnið Frú Ragnheiðar á vegum Rauða kross Reykjavíkur þar sem hjúkrunarfræðingar og aðrir menntaðir sérfræðingar bjóða jaðarhópum samfélagsins almenna heilsuvernd. Frú Ragnheiði þekkjum við flest öll, held ég. Hún dreifir hreinum sprautunálum til einstaklinga sem sprauta sig, tekur við notuðum málum til förgunar, tekur blóðþrýsting, setur umbúðir á sár og veitir aðra skaðaminnkandi aðhlynningu. Skaðaminnkunaraðgerðir má nota meðfram öðrum aðgerðum sem ætlaðar eru til að stöðva eða minnka tíðni vímuefnaneyslu í samfélaginu. En á móti kemur að hugmyndafræði skaðaminnkunar gengur út frá því að sumir vímuefnanotendur geti ekki eða vilji ekki hætta að nota vímuefni. Sömuleiðis viðurkennir hún að sumir einstaklingar sem nota vímuefni þarfnast ekki meðferðarúrræða vegna notkunarinnar.

En hvers vegna skaðaminnkun? Áhersla á harðar löggæsluaðferðir gegn vímuefnaneytendum á kostnað heilbrigðisþjónustu hefur leitt til stóraukinnar útbreiðslu alnæmis og lifrarbólgu C á heimsvísu. Á meðan smittíðni fer almennt lækkandi í heiminum fer smit vaxandi meðal fólks sem sprautar vímuefnum í æð. Talið er að 16 milljónir manna sprauti sig með vímuefnum í heiminum. Af þeim eru 10 milljónir smitaðir af lifrarbólgu C og 3 milljónir smitaðir af HIV-veirunni. Ótti við handtöku, útskúfun eða önnur hörð viðbrögð við vímuefnaneyslu ýtir undir áhættuhegðun smitaðra neytenda, hamlar aðgengi þeirra að hreinum sprautunálum og eykur á smithættu annarra neytenda og rekkjunauta þeirra. Hlutfall þeirra sem smitaðir eru af lifrarbólgu C hækkar upp í allt að 90% allra sem sprauta sig í þeim löndum þar sem bannstefnu er framfylgt hvað harðast. Vandamálið er í raun orðið svo alvarlegt og orsakasamhengið á milli fíkniefnastríðsins og tíðni alnæmis- og lifrarbólgusmits svo augljóst að Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hefur stigið það sögulega skref að kalla eftir afglæpavæðingu vímuefnavörslu til að stemma stigu við faraldrinum. Augljóslega af þeim sökum og mörgum öðrum leggja Píratar til afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta vímuefna.

Auk þess að ýta undir frekari útbreiðslu smitsjúkdóma hefur refsistefnan aðrar alvarlegar afleiðingar. Ofskömmtun vímuefna er stór orsakavaldur dauðsfalla ungs fólks í Evrópu. Talið er að ofskömmtun sé dánarorsök um 3,5% karla undir fertugu og ofskömmtun er helsta dánarorsök þeirra sem neyta vímuefna. Ópíumskyld lyf finnast við dánarrannsókn meiri hluta dauðsfalla vegna ofskömmtunar, í um 75% tilfella. Fjölda dauðsfalla má rekja beint til bannstefnunnar sjálfrar. Stríðið gegn fíkniefnum sem háð var í nafni heilsu og velferðar fólks hefur snúist upp í andhverfu sína. Samhliða himinháum útgjöldum til löggæslu og refsiréttarkerfis hefur fjárfesting í heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir vímuefnaneytendur verið af skornum skammti. Í stað þess að hjálpa fólki sem notar vímuefni til að halda heilsu og vellíðan hafa ríki heims einbeitt sér að því að valda þeim enn meiri skaða með fangelsun, jaðarsetningu og þvingaðri vímuefnameðferð. Sem andsvar við þeim ómannúðlegu aðferðum hafa aðilar úti um allan heim, sérstaklega læknar og heilbrigðisstarfsfólk, tekið málin í sínar hendur. Þessar hugrökku manneskjur hafa oft hætt starfi sínu og frelsi til að veita vímuefnanotendum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Með mannúð og virðingu í fyrirrúmi hafa þau farið á fund vímuefnanotenda og boðið þeim aðstoð til að minnka skaðann sem hlýst af notkun ólöglegra vímuefna á beinan eða óbeinan hátt. Ég vil meina, virðulegi forseti, að frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra geri einmitt þetta, hafi virðingu og mannúð að leiðarljósi og veiti þannig skaðaminnkandi þjónustu. Ég vona innilega að það nái fram að ganga núna og er virkilega stolt af því að við séum að ræða það vegna þess að þetta er alls ekki algild þjónusta sem veitt er um allan heim. Hún er ekki fátíð en hún er alls ekki nógu algeng.

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða önnur skaðaminnkunarúrræði, mér finnst við ekki geta stoppað hér. Við könnumst við nála- og sprautudreifingu og við höfum komið henni upp að einhverju marki á Íslandi. Ég hef minnst áður á það mikilvæga starf sem Frú Ragnheiður vinnur í því samhengi. Við höfum fáeinar útgáfur af viðhaldsmeðferð þótt mér finnist að við getum gert töluvert betur í þeim efnum, án þess að ég ætli að fara mikið út í þá sálma hér. Svo erum við með öruggu neyslurýmin sem ég ætla að ræða betur á eftir en mér finnst við þurfum líka að standa okkur betur í vörnum gegn ofskömmtun vímuefna. Mér heyrist á hæstv. heilbrigðisráðherra að það sé í vinnslu að koma Naloxone betur í hendur á notendum en betur má ef duga skal. Vissulega heyri ég langoftast þegar við tölum um vímuefnanotendur og þegar við tölum um vímuefnavanda nefnt mikilvægi jafningjafræðslu, mikilvægi forvarna. Ég tek heils hugar undir að það sé gríðarlega mikilvægt. Ég held líka að sú tengslamyndun sem fæst við skaðaminnkandi úrræði sé gríðarlega mikilvæg vegna þess að stærsta orsök vímuefnavanda er einhvers konar tengslarof viðkomandi manneskju, hvort sem það er sambandsleysi við samfélagið í heild sinni eða rof á eigin getu til að mynda tengsl. Að lokum er minnst á sem skaðaminnkunarúrræði hreinleika- og innihaldspróf vímuefna. Þetta er nokkuð sem gæti nýst gríðarlega vel ef við myndum afglæpavæða vímuefni til að tryggja að þeir sem kjósa að nota vímuefni séu ekki að láta ofan í sig við eitthvert eitur heldur fái það sem þeir telja sig vera að kaupa. Ég gleymi líka að minnast á dreifingu smokka og annarra verkfæra til að koma í veg fyrir kynsjúkdóma.

Hvað öruggu neyslurýmin varðar, svo að ég skilgreini þau út frá þekkingu minni, er átt við stofur eða stofnanir þar sem notendur geta neytt vímuefna á öruggan hátt undir eftirliti lækna án þess að hætta á sé handtöku. Aðgangur að öruggum neyslurýmum minnkar líkur á andláti af völdum ofskammta, bætir almenna heilsu vímuefnanotenda, bætir aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, minnkar smittíðni smitsjúkdóma og minnkar glæpi til fjármögnunar vímuefnaneyslu. Auk þess draga neyslurýmin úr ónæðinu sem getur fylgt neyslu vímuefna á almannafæri. Þetta eru gamlar tölur sem ég er með hér en það voru samtals 88 örugg neyslurými í Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Spáni, Portúgal, Sviss, Lúxemborg, Kanada og Ástralíu árið 2015. Ríki sem opna örugg neyslurými hafa þurft að leggjast í lagabreytingartillögur til þess að þau megi verða að veruleika og við erum kannski að ræða um bestu nálgunina til að tryggja þetta.

Áður en tíma mínum lýkur, virðulegi forseti, vil ég ræða skaðaminnkun í fangelsum. Það er mjög mikilvægur málaflokkur og ég tel að við verðum að beina sjónum okkar þangað næst. Allt að 9 milljónir manna sitja í fangelsum heimsins ár hvert. Þær tölur taka ekki tillit til þeirra milljóna sem sitja inni í styttri tíma, t.d. sitja um 10 milljónir manna í gæsluvarðhaldi ár hvert um heim allan. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun mætast tvö helstu lýðheilsuvandamál allra samfélaga innan veggja fangelsa, mikil neysla áfengis og annarra vímuefna og há smittíðni alnæmis meðal fanga haldast í hendur. Þetta er að sjálfsögðu á alþjóðavettvangi sem ég vísa í og ég er ekki að halda fram nákvæmum tölum á Íslandi. Víða deila fangar með sér nálum og öðrum búnaði til vímuefnaneyslu sem stóreykur útbreiðslu alnæmis og lifrarbólgu C meðal frelsissviptra einstaklinga. Dæmi eru um að allt að 12 fangar deili sprautunál til vímuefnanotkunar. Innan Evrópu er talið að allt að þrír af hverjum fjórum föngum noti reglulega vímuefni eða hafi ánetjast þeim. Endurnotkun og samnýting sprautunála er meginorsök alnæmissmits í fangelsum í Evrópu. Að sama skapi er þeim þjóðfélagshópum sem hættast er við að smitist af alnæmi og lifrarbólgu C einnig mjög hætt við að lenda í fangelsi vegna bágrar stöðu sinnar í samfélaginu. Hlutfall alnæmissmitaðra og lifrarbólgusmitaðra er því miklu hærra meðal fangelsaðra einstaklinga en annarra hópa þjóðfélagsins. Heilsu fanga hrakar oft enn frekar vegna mikillar útbreiðslu kynsjúkdóma, andlegra veikinda og jafnvel berkla innan fangelsa.

Árið 2014 mátti aðeins finna nála- og sprautudreifingarúrræði í fangelsum átta ríkja. Innan Evrópu bjóða Spánn, Sviss, Þýskaland og Lúxemborg upp á hreinar sprautunálar. Einnig bjóða Íran, Moldóva og Kasakstan sprautunálaþjónustu. Viðhaldsmeðferð innan fangelsa er stunduð í 43 löndum. Öll Evrópulönd utan Kýpur og Grikklands bjóða upp á einhvers konar viðhaldsmeðferð en þess ber þó að geta að viðhaldsmeðferð er ekki í boði í öllum fangelsum og mörg ríkjanna eiga langt í land með að veita öllum föngum viðhaldsmeðferð sem hana þurfa. Það er mjög sjaldgæft að fangelsisyfirvöld dreifi smokkum til fanga til að koma í veg fyrir kynsjúkdómasmit.

Hæstv. ráðherra hefur hafið, að ég tel, sögulega göngu í átt til skaðaminnkunarúrræða en ég vildi halda til haga mikilvægi þess að við hugum að öllum þeim skaðaminnkunarúrræðum sem okkur standa til boða og að við hugum sérstaklega að þeim hópum í samfélaginu sem mest þurfa á slíkri aðstoð að halda en geta mögulega minnst sóst eftir henni sjálfir. Ég vildi koma því til skila í lokin.