150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessa útgáfu tek ég svo sannarlega undir með hv. þingmanni og ég vil minna þingmann og þingheim allan á að í einni af mínum fyrstu þingræðum kom ég einmitt inn á að það er svo mikilvægt að við hlustum hvert á annað og það er svo mikilvægt að við leyfum okkur þann munað að taka undir með fólki þótt það sé ekki endilega í sömu stjórnmálahreyfingu og við. Það er frábært. Það er hárrétt hjá þingmanninum og ég held að mjög margir þeirra sem hafa verið í einhvern tíma í pólitík átti sig á því að smátt og smátt fara aðrir stjórnmálaflokkar að velja sér mola úr kassanum hjá þeirra flokki og þannig er það sannarlega hjá flokki þingmannsins.

Mig langar hins vegar í seinna andsvari aðeins að inna þingmanninn eftir einu. Það hefur verið aðeins í umræðunni núna í samfélaginu í kjölfar framlagningar þess máls að menn hafi einhverjar áhyggjur af því að sveitarfélögin muni eiga erfitt með þetta og síðan að það sé eiginlega ekki gert ráð fyrir kostnaði o.s.frv. Mig langar aðeins að heyra sjónarmið þingmannsins um þetta, sérstaklega í ljósi þess að nú hef ég í rauninni skilið framlagningu þessa máls og þá vegferð sem það hefur verið á í samfélaginu sem svo að það sé a.m.k. að einhverju leyti til komið vegna ákveðins ákalls af hálfu sveitarfélaganna, kannski sérstaklega Reykjavíkur, um að mál eins og þetta komi fram. Mig langar aðeins að heyra hvað þingmanninum finnst um þetta, hvort sveitarfélögin þurfi að hafa af þessu áhyggjur eða hvort þetta sé ekki kannski bara fyrst og fremst gott mál.