150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum, um neyslurými. Ég vil taka það strax fram að ég styð þetta mál heils hugar og var einn af velferðarnefndarmönnunum sem tók þátt í að koma því á koppinn. Það verður að taka það líka skýrt fram að það var hv. þm. Halldóra Mogensen sem kom þessum málum upphaflega af stað.

Við verðum að horfa á þetta út frá því sjónarhorni að við erum að brjóta ákveðið blað. Við erum að fara út úr því þægindaboxi sem við höfum verið að pakka okkur inn í, að horfa á notendur fíkniefna sem einhverja glæpamenn. Það segir sig sjálft að við erum að tala þarna í mörgum tilfellum um veikt fólk, mjög alvarlega veikt fólk, og við eigum að koma fram við það með því að hjálpa því á alla mögulega vegu. Eitt af því er að búa til neyslurými og svæði í kringum þau þar sem má vera með þá skammta sem fólk þarf til neyslu þann daginn. Ég geri mér grein fyrir því sem gamall lögreglumaður til nokkurra ára að þetta var vandamál þegar ég var í lögreglunni fyrir nokkrum áratugum síðan en er orðið stórvandamál í dag. Því miður virðist alltaf verið að eltast við rangan enda í þeim málum vegna þess að lögregluvandamálið er í fæstum tilfellum fíklarnir sjálfir heldur þeir sem hafa atvinnu af því að smygla efnunum inn til landsins og græða.

Með því að búa til neyslurými hverfur það vonandi að sprautunálar finnist á lóðum barnaheimila eða skóla. Meira að segja í almenningsgörðum hefur verið gengið fram á sprautunálar og börn hafa komist í tæri við þær. Það er grafalvarlegt mál og þess vegna er mjög gott að viðkomandi einstaklingar fái aðstöðu, fái hreinar nálar, fái alla aðstoð og jafnvel þarf eiginlega að tryggja þeim næringu vegna þess að þeir eiga í sjálfu sér rétt á því að þeim sé hjálpað í veikindunum. En það er annað sem er mjög alvarlegt mál sem við gleymum oft, þetta eru börn fólks, þetta eru frændur og frænkur og systkini. Þessi sjúkdómur fer ekki í manngreinarálit á neinn hátt. Það veit enginn hver lendir í því að vera þarna megin borðs og það vill það sennilega enginn. Ég hef a.m.k. ekki rekist á einn einasta mann sem myndi vilja vera í þessari stöðu. Þess vegna er svo brýnt að taka á þessu og brjóta upp þetta kerfi. Við höfum setið föst í sama hjólfarinu svo lengi að það er löngu orðið tímabært að gera eitthvað í því. Það er ömurlegt til þess að vita að einstaklingar hafa verið í gjörsamlega óviðunandi aðstöðu í óviðunandi húsnæði þar sem þeir hafa tekið of stóran skammt og enginn til þess að grípa þá, enginn til að hjálpa þeim. Það er óviðunandi aðstaða. Það er ömurleg aðstaða líka fyrir mæður og feður þessara einstaklinga að vita af því að barnið þeirra hafi þurft að lenda í þessum aðstæðum.

Þess vegna er svo brýnt að við sjáum til þess að breyta þessum hlutum. Ég er algerlega sannfærður um að við verðum líka að breyta lögum um þessi mál. Við verðum að sjá til þess að neysluskammtar séu ekki refsiverðir. Við verðum að breyta þeim lögum og gera það strax vegna þess að annars lendum við alltaf í einhverjum árekstrum. Það verða árekstrar og við eigum að koma í veg fyrir þá strax. Við eigum ekkert að biðja lögregluna um að loka augunum. Við eigum ekki að biðja hana um að horfa í aðra átt. Við eigum að sjá til þess að hún þurfi bara ekkert að vera að horfa í þessa átt og geti einbeitt sér að því sem hún á að vera að gera, að stöðva innflutning, stöðva þá sem eru að græða á þessum einstaklingum, sem er eitt það ömurlegasta sem er eiginlega til, að það skuli vera þarna úti hópar sem eru tilbúnir til að gera hvað sem er til að græða við hvaða aðstæður sem er.

Ég styð þetta frumvarp og ég vil líka benda á það að þegar það fer til velferðarnefndar verðum við að sjá til þess að allir sem vilja geti kynnt sér það, komið með sínar athugasemdir og að leitað verði til allra þeirra ráðgjafa sem best þekkja til slíkra aðstæðna, eins og hjá SÁÁ og fleiri. Ég er alveg viss um að þeir munu leggja sitt á vogarskálarnar. Ég segi að við tökum við öllum ábendingum og ég treysti velferðarnefnd alveg til þess að klára þetta mál og koma með frábært mál út úr nefndinni þannig að við getum byrjað nýjan kafla á þessari vegferð.