150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1970, með síðari breytingum, neyslurými, frá heilbrigðisráðherra. Mig langar svolítið að taka undir lokaorð síðasta ræðumanns og segja að ég get kannski ekki fagnað þessu máli en það er mikilvægt skref í átt til þess að horfa á þau efni sem þarna um ræðir sem ólögleg efni. Þetta er sem sagt mannúðarfrumvarp og að því leytinu get ég fagnað því, þó að tilefnið sé ekki til fagnaðar, þ.e. veruleikinn sem við erum stödd í hvað þann málaflokk varðar.

Ég kem líka hingað upp vegna þess að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, sem er í velferðarnefnd, gat ekki verið viðstödd þessa umræðu og var með nokkrar spurningar sem ég hripaði niður. Svör við sumum eru nú komin fram, eins og með kostnaðarhliðina eða sveitarfélögin versus hið opinbera, ríkið, og þá hvort fleiri sveitarfélög séu að fara út í þetta eða eitthvað slíkt. En það er náttúrlega Reykjavíkursvæðið sem er langstærsta svæðið. Mér fannst ráðherrann svara því þannig áðan að það væru allt að 50 milljónir frá ríkinu sem hún sæi fram á að færu í þetta og reksturinn yrði tryggður, alla vega fyrsta árið. Svo var það annað með neyslurými, hvernig það verði úr garði gert. Það er ekki alveg á hreinu hvernig það verður gert. Við höfum verið að viðra okkar á milli hvort það væri þá ekki í formi bifreiðar, væri bíll. Fólk hefur velt fyrir sér að það gætu verið 15–25 eða 35 einstaklingar úr þessum hópi sem myndu nýta sér þetta. Þá myndi það alveg geta verið bifreið og þá væri kannski einnig hægt að fara í nærsveitarfélögin ef kallað væri eftir því.

Svo var líka spurning í sambandi við lögregluna og hver aðkoma lögreglunnar hefði verið að þessari vinnu. Það snýr aðallega að heimildinni sem er verið að undirbúa til að bregðast við þessum aðstæðum, að taka ekki menn fasta þegar þeir eru á leið í neyslurými. Þannig að það er þá í raun og veru svarið við þeirri spurningu, ekki að þeir snúi blinda auganu að málinu heldur að þeir hafi heimild til að láta þetta viðgangast.

Eins og fólk hefur kannski tekið eftir hefur sá sem hér stendur verið mikill áhugamaður um fíkniefnavandann og áfengisvandann og set ég þetta undir sama hatt í mínum huga, vandamál þeirra sem verða efnunum háðir. Verður það að teljast alveg 100% öruggt að þeir sem eru komnir á þennan stað í neyslunni eru orðnir mjög háðir fíkniefnum og þar af leiðandi, eins og kemur fram í frumvarpinu, jaðarsettir í samfélaginu. Þetta eru einstaklingar sem hafi ekki ráðrúm né neitt í umhverfinu sem er hægt að telja eðlilegt líf. Þetta er vandi okkar í tilverunni á jarðarkringlunni, að glíma við þann fjanda sem fíknin er og að við skulum vera að kljást við það að undirheimar bindist við það að þessi efni eru ólögleg. Ég hef oft talað um að við höfum reynslu af því frá því fyrir 1930 að banna áfengi í heiminum og þá mynduðust undirheimar sem urðu að glæpastarfsemi sem enginn er stoltur af að hafa tekið þátt í á þeim tíma. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hlustaði með opnum eyrum á þau mál þegar þau voru hérna inni á þinginu og ég kom fyrst inn sem varamaður. Þá voru það títtnefndir Píratar sem fluttu þau mál og var ég mjög ánægður með umræðuna og að hún skyldi opnast. Ég man að þáverandi heilbrigðisráðherra tók nokkuð vel í hugmyndina um afglæpavæðingu sem síðan hefur ekki orðið að veruleika. Ég sjálfur var í ræðu um daginn þegar það mál var á dagskrá og efaðist um að þetta gæti leitt til þess árangurs sem til er sáð, sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið. Það sem kannski kom ekki skýrt fram hjá mér þá er að ef við værum að tala um neysluskammta og að öðru leyti væri þetta ólöglegt, myndu þá ekki bara þeir sem versla með þetta í undirheimunum afgreiða það allt saman í neysluskömmtum? Eins þau efni sem nú eru komin fram sem deyða fólk með aðeins einum skammti en líta kannski sakleysislega út í lófanum. Þetta hnaut ég um í þeirri umræðu, svona í stuttu máli.

Ég hefði líka viljað sjá hæstv. heilbrigðisráðherra sýna þeim meðferðum sem við búum við, ég get ekki sagt meiri athygli en hjálp til að standa betur að því sem þær fást við. Ég hef oft rætt það hér að biðlistar eru að lengjast og váin að stækka. Nú er sem aldrei fyrr flóð af fíkniefnum í gangi. Einhverra hluta vegna gengur þeim sem eru að smygla þeim til landsins mun betur að koma því hingað og er það mikið áhyggjuefni. Þar af leiðandi hefur verðið á götunni lækkað á efnunum. Ég heyrði það núna á dögunum að einhver græja, hvernig sem hún er útbúin, sem gegnumlýsir gáma og annan slíkan innflutning til að vita hvort það séu einhver ólögleg efni þar innan borðs hefur verið biluð. Sú græja hefur ekki verið í lagi einhvern tíma. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta heyrði ég. Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál ef menn geta verið að smygla inn stórum förmum af fíkniefnum í skjóli þess að græjan sem á að gegnumlýsa gáma er biluð og þar fram eftir götunum.

Ég minntist á undirheima og vitnaði í áfengisbannið 1920–1930. Ég nefndi það einmitt í ræðu um daginn þegar við vorum að ræða neysluskammtamálið hvort ráðamenn heims gætu ekki komið á fundi þar sem menn myndu reyna að leggja spilin á borðið og ráða ráðum sínum um hvernig við ættum að nálgast þennan vanda á alheimsvísu. Það er mjög erfitt fyrir eitt land að ætla að fara að skera sig úr og gera slík efni lögleg. Það gengur ekki upp í mínum huga. Það yrði að vera átak. Kannski mætti hafa það í einhverju slíku formi eins og byrjað er að ræða um loftslagsvandann og slíkt þar sem þjóðir komust að þeirri niðurstöðu að þær hefðu alveg rosalegar áhyggjur af loftslagsmálum og vildu gera eitthvað í þeim málum og skrifuðu undir samkomulag sem við þekkjum í því sambandi. Það er spurning hvort það væri ekki hægt að koma slíku á og að þjóðir heims myndu skrifa undir slíkt samkomulag. Við megum ekki tapa þessu stríði. Mér finnst þetta það alvarlegt mál að við megum ekki að lúffa fyrir því. Við þurfum að finna einhverjar leiðir. Ég held að þjóðir heims þurfi að standa saman til þess að finna leið sem er vænleg til árangurs. Ég hef svolítið verið að fylgjast með, ég hef reyndar ekki fengið neinar nýjar fréttir af því hvernig þeim gengur í Bandaríkjunum. Þar voru, held ég, lögleidd aðallega kannabisefni, í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Þetta er það stórt mál að ég held að við verðum að tala um það hnattrænt en ekki hver og ein þjóð út af fyrir sig. Þetta er vá yfir öllum löndum, rúmlega þau sem við berum okkur saman við.

Mér finnst þetta mál mikið framfaraskref og mun fylgjast með því. Það var ein spurning eftir en ég fékk eiginlega svarið við henni áðan. Hún var í sambandi við 18 ára aldurinn og af hverju ekki væri farið neðar því að auðvitað eru unglingar undir 18 ára aldri líka sprautufíklar, eins sorglegt og það er. En þá er það náttúrlega lögaldurinn og það væri þá unnið, að mér skildist í samráði við barnaverndaryfirvöld og get ég alveg keypt það svar.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna, enda er tíminn að verða búinn. Ég fylgist með hverju fram vindur.