150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er pínulítið ringlaður yfir afstöðu hv. þingmanns. Ég fæ ekki betur séð en að hv. þingmaður styðji þetta frumvarp og það er gott, enda er þetta mjög gott frumvarp og verður unnið meira af þinginu. Fólk getur endalaust rökrætt ýmis útfærsluatriði, sér í lagi í samhengi við afglæpavæðingu, þ.e. að hætta að refsa vímuefnaneytendum fyrir vímuefnaneyslu, lagatæknilega fyrir vörslu á vímuefnum til einkaneyslu. Það sem ég átta mig hins vegar ekki á er hvernig hv. þingmaður getur verið hlynntur þessu frumvarpi en á móti afglæpavæðingu út frá þeim forsendum sem hann nefndi fyrir andstöðu sinni við afglæpavæðingu í sinni ræðu. Nú getur vel verið að einhver sé hlynntur þessu máli en á móti afglæpavæðingu af einhverjum öðrum ástæðum sem ég hef ekki kynnt mér en hv. þingmaður talaði um efasemdir sínar um að afglæpavæðing næði settu markmiði. Þetta veldur mér heilabrotum vegna þess að markmiðið með afglæpavæðingu er afglæpavæðing. Að það að neyta vímuefna, eða strangt til tekið, lagatæknilega, vera í sínum fórum með ólögleg vímuefni til einkaneyslu, verði ekki lengur refsivert.

Við skulum ofureinfalda hlutina. Heimurinn er ekki svona einfaldur en ofureinföldum hann bara að gamni. Segjum sem svo að það séu til tvær tegundir af vímuefnaneytendum: Vímuefnaneytendur sem eiga í vandræðum með neyslu sína og vímuefnaneytendur sem eiga ekki í vandræðum með neyslu sína. Segjum að vímuefnaneytandi eigi ekki í vandræðum með neyslu sína. Þá veltir maður fyrir sér: Fyrir hvað er verið að refsa? Hvað hefur viðkomandi gert einum eða neinum? Það er rangt að refsa þeirri manneskju einfaldlega af sömu ástæðu og það er rangt að refsa fólki sem hefur ekki gert neitt af sér. Það er það einfalt. Vímuefnaneytendur sem síðan eiga í vandræðum — að refsa þeim er siðferðilega úti á túni að mínu mati. Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu að þetta frumvarp sé mikilvægt og gott skref þar sem við viljum jú vera góð en ekki vond við fólk sem á við vandamál að stríða með sína neyslu á sama tíma og hann er á móti afglæpavæðingu. Ég skil þetta ekki alveg.