150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í lokaræðu minni eru allnokkrar aðgerðir sem falla undir hugmyndafræði skaðaminnkunar, rétt eins og gerist með þetta tiltekna þingmál sem hér er til umfjöllunar. Það gera líka róttækari skref eins og það sem hv. þingmaður nefnir. Þau eru ekki til umfjöllunar núna í því máli sem hér er rætt. Ég vil hins vegar segja að um leið og við erum komin með mál hér á vettvang þingsins og gerum það að lögum, sem ég vil sjá okkur gera, erum við líka að færa umræðuna í samfélaginu frá hugmyndafræði refsingar yfir í hugmyndafræði stuðnings. Þegar sú hugmyndafræði er farin að ráða lögum og lofum gildir það hvort sem er um löggæsluna eða heilbrigðisþjónustuna að hún er viðkomandi fólki til stuðnings en ekki til refsingar. Ég er þeirrar skoðunar að hugmyndafræði skaðaminnkunar þurfi að rata inn í miklu fleiri kima samfélagsins og að þetta mál sé fyrsta skrefið en mikilvægt skref.