150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu að bæta við það sem hefur komið fram hér og vissulega er gott að hægt var að bregðast skjótt og vel við beiðni um sérstaka umræðu. Ég ætla eiginlega að leyfa mér að bæta við í ljósi alvarleika málsins: En ekki hvað? Staðreyndin er hins vegar sú að ég mun standa og get staðið hér og farið fram á að fá svör við beiðni af þessum toga, önnur en þau að þurfa að líta á opna heimasíðu Alþingis til að athuga hvort þar hafi orðið breyting á lista. Beiðnin var einfaldlega orðuð svona, með leyfi forseta: „Heil og sæl. Ég óska eftir því að kannað verði hvort heilbrigðisráðherra geti mætt í óundirbúnar fyrirspurnir á morgun til að ræða atriði sem lúta að hennar ráðuneyti vegna brottvísunar þungaðrar konu úr landi“ — atriði sem ekki er hægt að taka upp í sérstakri umræðu við hæstv. dómsmálaráðherra hér, eðli málsins samkvæmt. Undir þessa beiðni tóku allir þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar en engin svör bárust frá þeim sem ráða för. Um það snýst gagnrýnin.