Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst orðið nokkuð áberandi hvað herra forseti er orðið viðskotaillur og hvumpinn upp á síðkastið í garð þingheims. Hér er verið að spyrja ósköp venjulegra spurninga. Síðast í gær vildi hæstv. forseti frábiðja sér allt tal um og hann væri hlutdrægur. Ég er ekki að halda því fram en ég bið hann þá að koma fram í nafni alls þingheims og tala frekar okkar máli en að halda langar ræður um þykkt á þingmálabunkum ríkisstjórnar eða tala um hverjir séu yngstir og elstir í ríkisstjórn eins og hann hefur gert við ýmis tilefni. Mér finnst ekkert óeðlilegt þó að herra forseti svari beiðni sem til hans kemur frá þingmönnum hér inni vegna þess að hann er sannarlega forseti okkar allra og ég vona að hann vilji vera það.

(Forseti (SJS): Forseti verður að játa að hann var svo óviðbúinn þessum viðbrögðum í upphafi fundar. Þegar beðið var um orðið um fundarstjórn forseta hélt forseti að það væri til að þakka honum fyrir að hægt var að koma á þessari sérstöku umræðu en innihald ræðnanna var annað.)