150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

Landsvirkjun.

[15:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra til upplýsingar skal lesið úr 2. málslið 2. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera.“

Þannig hljóðaði hið heilaga orð. Það kom fram í útvarpsviðtali um daginn hjá forstjóra Landsvirkjunar að sæstrengur sem slíkur væri eins og viðskiptavinur, ekki væri hægt að gefa upp upplýsingar um slíka. Þá er spurningin þessi: Hefur Landsvirkjun staðið í samningaviðræðum við einhverja ótilgreinda aðila um lagningu sæstrengs? Það liggur fyrir, án þess að það hafi verið gefið upp, að nokkur hundruð milljónir hafa verið lagðar í þetta verkefni. Því spyr ég: Hefur Landsvirkjun, svo að hæstv. ráðherra viti, staðið í samningaviðræðum við einhverja tilgreinda eða ótilgreindra aðila um lagningu sæstrengs til Íslands frá Evrópu?