150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

framkvæmd útlendingalaga.

[15:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Forseti. Ég er komin hingað upp til að ræða við hæstv. dómsmálaráðherra en í gær bárust þær fregnir að kasóléttri konu á 36. viku meðgöngu hefði, ásamt tveggja ára gömlum syni og maka, verið vísað brott frá landinu, þvert á eindregnar ráðleggingar ljósmóður og læknis á bráðadeild mæðraverndar Landspítala. Framkvæmdin virðist hafa verið byggð á vottorði frá lækni sem aldrei hafði skoðað konuna en mat hana ferðafæra á grundvelli þriggja vikna gamallar heimsóknar konunnar til sóttvarnalæknis.

Eins og hæstv. ráðherra margítrekar við fjölmiðla þá tjáir hún sig ekki um einstaka mál og þess vegna ætla ég ekki að biðja ráðherra um að lýsa skoðun sinni á þessari aðgerð heldur meðferð stjórnvalda almennt á fólki á flótta og biðja hæstv. ráðherra um að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum fólks á flótta.

Áður hefur hæstv. ráðherra haldið því fram að hér á landi sé rekin mannúðleg stefna í málefnum flóttamanna en eftir fréttir gærdagsins og ekki síður eftir viðbrögð fulltrúa stjórnvalda í gær fæst það þvert á móti staðfest að hér er rekin mannfjandsamleg stefna í málefnum fólks í leit að vernd. Já, af því að hæstv. ráðherra tjáir sig ekki um einstaka mál vil ég heyra hvaða skoðun hún hefur almennt á því að íslensk stjórnvöld vísi á brott frá landinu konum sem eru gengnar langt með börn sín, konum sem eru á seinni hluta meðgöngu, því líkt og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur lýst yfir er óráðlegt að konur fljúgi eftir 32. viku meðgöngu.

Telur hæstv. ráðherra að með því að vísa konum á flótta á brott frá landinu í slíku ástandi séu íslensk stjórnvöld að fara að skýrum markmiðum laga sem einmitt segja að hér eigi að tryggja mannúðlega meðferð fólks í leit að vernd?