150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

framkvæmd útlendingalaga.

[15:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Varðandi áherslu ríkisstjórnarinnar er hún mjög skýr í þessum málaflokki eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingu hennar, að mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verði lögð til grundvallar og að áhersla sé á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd.

Þetta er útgangspunktur. Hér voru samþykkt ný heildarlög um útlendinga með nánast öllum greiddum atkvæðum eftir þverpólitíska vinnu. Sá málaflokkur og sú löggjöf er byggð á því sem segir m.a. í stefnu ríkisstjórnarinnar um mannúðlega meðferð og skilvirka þjónustu. Það er þar sem við þurfum og erum að gera vel, að það sé alltaf einstaklingsbundið mat þegar aðilar koma hingað og sækja um alþjóðlega vernd að kerfið okkar svari þeim hratt og örugglega, hvort sem þeir eiga rétt á verndinni eða ekki. Við sjáum að við erum að ná árangri með að segja fólki að það geti fengið vernd á 4–11 dögum, þeir sem eiga rétt, m.a. frá Venesúela. Það sýnir sig út af þessu forgangsatriði að fólk hér sem kemur og á rétt á vernd er fljótara að aðlagast íslensku samfélagi og kerfið hefur þóknast því fólki vel. Það er svona sem kerfið á að virka, að það virki vel, og að aðallega fyrir þá sem þurfa á því að halda þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir sé aðbúnaður góður, að það fólk fái ekki síður svör hratt og örugglega og að mannúð sé höfð að leiðarljósi við þær aðgerðir líka.

Af því að hún tekur til sérstaklega þetta verklag heyrir það til undantekningar sem hægt er að fara í og er beitt oft og tíðum þegar um heilbrigðisaðstæður er að ræða og þá þarf að koma skýrt vottorð frá heilbrigðisyfirvöldum um að hætta steðji að vegna brottvísunarinnar. (Forseti hringir.) Þá hefur henni verið frestað og það hefur margoft verið gert í okkar kerfi þegar um er að ræða líkamleg eða andleg veikindi eða m.a. þungun.