150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

framkvæmd útlendingalaga.

[15:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hæstv. ráðherra hafi gert hvað sem hún gat til að koma sér undan því að svara þeirri spurningu sem fyrir hana er var lögð, þ.e. hvort hún telji að það að vísa úr landi konu á seinni hluta meðgöngu, konu sem gengin er 36 vikur, samræmist mannúðlegri stefnu í málefnum flóttamanna. Ég er ekki að biðja hæstv. ráðherra um að svara til um þetta tiltekna mál. Ég er að biðja hæstv. ráðherra um að svara því hvort hún telji rétt að fara gegn eindregnum tilmælum heilbrigðisstarfsmanna, þ.e. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem mælir alls ekki með því að konur fari í flug eftir 32. viku. Það er alveg ljóst að mistök voru gerð í gær þegar miklu eldra vottorð var tekið fram yfir nýrra vottorð og eindregin tilmæli starfsmanna Landspítala.

En nú er ég ekki að spyrja hæstv. ráðherra um það, enda kveðst hæstv. ráðherra ekki tjá sig um einstaka mál. Ég er bara að biðja um skýrt svar, já eða nei, hæstv. ráðherra: Er það mannúðleg stefna að reka konu sem gengin er 36 vikur úr landi með flugvél?