150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

framkvæmd útlendingalaga.

[15:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Eins og segir í lögum okkar er það fyrir heilbrigðisstarfsfólk að meta en ekki lögfræðinga hvenær aðila er stefnt í hættu með því að fara um borð í flugvél og vera vísað af landinu. Ég er auðvitað mannleg líkt og aðrir þingmenn og það olli mér ugg að sjá fréttirnar. En það lágu fyrir skýr tilmæli heilbrigðisyfirvalda um að það væri ekki hætta á ferðum í þessu máli. Síðan koma önnur tilmæli og þá vísa ég til (Gripið fram í.) forstjóra Útlendingastofnunar um að þau þurfi að vera skýr. Ég fagna því frumkvæði landlæknis um að taka þessi tilmæli upp af því að það er hérna (Gripið fram í.) sem þarf að skoða málið. Það er hérna sem við getum gert betur. Landlæknir hefur vísað til þess að það þurfi að skoða hvernig tilmæli heilbrigðisyfirvalda til okkar séu af því að það er ekki verkefni Útlendingastofnunar að skoða sjúkraskrá og persónuhagsmuni einstaklinga og við viljum ekki þannig kerfi. Við viljum að sjálfsögðu fá skýrt (Forseti hringir.) svar frá heilbrigðisyfirvöldum og ég fagna því að Útlendingastofnun ætli að setjast niður með landlæknisembættinu til að skoða þau tilmæli.