150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

skerðingar öryrkja.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það væri mjög mikið unnið með því að vera með samtímaleiðréttingu á öllum greiðslum frá almannatryggingum og Tryggingastofnun ef hægt er. Þessi tilvik, þar sem í ljós kemur að sá sem á réttindi í kerfinu þarf að skila til baka vegna ofgreiðslu, eru vegna þess að forsendur sem viðkomandi hefur oft og tíðum skilað inn til kerfisins hafa brugðist, t.d. forsendur um atvinnutekjur eða lífeyristekjur eða aðrar tekjur sem geta fallið til á viðkomandi viðmiðunarári. En þá er líka þess að geta að það eru sumir sem eiga rétt á frekari bótum vegna þess að forsendurnar hafa verið ofmetnar hvað tekjuhliðina snertir. En samtímagreiðslur, samtímaleiðrétting er eitthvað sem við hljótum að stefna að og ég myndi mjög gjarnan vilja taka þátt í samtali um að gera kerfunum okkar kleift að vera ekki lengur með þessar eftiráleiðréttingar sem tengjast skattframtölum.