150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

brottvísun barnshafandi konu.

[15:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort henni fyndist að farið hefði verið varlega í þessu máli, hvort stoðdeild ríkislögreglustjóra hefði farið varlega miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir, þ.e. að um áhættumeðgöngu væri að ræða og að konur í áhættumeðgöngu ættu ekki að fljúga eftir 32 vikur. Um er að ræða konu sem er komin á 36. viku og ég bað hæstv. ráðherra að setja sig í hennar spor. Það er það sem ég bað um. Fór stoðdeild ríkislögreglustjóra varlega í þessu máli? Gerði hún það virkilega?

Ráðherra minntist á að ráðherrar væru ekki lengur að vasast í einstaka málum. Ég myndi líka vilja spyrja ráðherra hvort dómsmálaráðuneytið hafi verið upplýst um mögulegan brottflutning þessarar fjölskyldu og aðstæður konunnar og nákvæmlega hvenær dómsmálaráðherra sjálf var upplýst um það. En fyrst og fremst er ég að spyrja ráðherrann álits. (Forseti hringir.) Fannst henni virkilega farið varlega í þessu máli?