150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda og hælisleitenda.

[15:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. ráðherra sem formann Framsóknarflokksins. Fyrirspurn mín varðar tvö mál sem snerta á stöðu innflytjenda hér á landi og hafa verið áberandi í umræðu vikunnar. Annars vegar er um að ræða margvísleg ummæli ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytis í pallborði á Þjóðarspegli Háskóla Íslands sl. föstudag sem hafa verið rædd áður í þessum sal og ég ætla ekki að endurtaka hér, en þau hafa verið fordæmd af fjölmörgum aðilum, m.a. síðast með yfirlýsingu verkalýðsfélagsins Eflingar, enda endurspeglaði hann viðamikla fordóma og sinnuleysi varðandi réttindi innflytjenda á vinnumarkaði. Hins vegar er um að ræða þá ómanneskjulegu meðhöndlun á kasóléttri albanskri konu sem sótt hafði hér um alþjóðlega vernd og flutt var úr landi í gærmorgun og var til umræðu í fyrirspurnatíma fyrr í dag.

Málefni hælisleitenda eru ekki á borði ráðuneyta þeirra sem Framsóknarflokkurinn fer með í þessari ríkisstjórn en flokkurinn ber vissulega ábyrgð á þeim ásamt stjórnarflokkunum tveimur og m.a. er að finna í samstarfssáttmála þessarar ríkisstjórnar áherslu á mannúðlega meðhöndlun hælisleitenda. Hins vegar eru auðvitað málefni vinnumarkaðar og innflytjenda á beinni ábyrgð Framsóknarflokksins. Mér þykir þögn hafa einkennt viðbrögð flokksins í þessum málefnum og finnst því við hæfi að spyrja formann Framsóknarflokksins: Eru þessi tvö mál í samræmi við stefnu þessarar ríkisstjórnar að mati formanns Framsóknarflokksins, bæði hvað varðar málefni innflytjenda og flóttamanna? Endurspegla ummæli ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins afstöðu ríkisstjórnarinnar til innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði? Telur ráðherra að brottvísun kasóléttrar konu sé í samræmi við þau markmið útlendingalaga að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga eins og kveðið er skýrt á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?