Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir að verða við beiðni minni um að ræða í sérstakri umræðu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og þær mikilvægu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í samgöngum á þessu svæði. Ísland er stórt en fámennt land sem gerir að verkum að það að reka hér samgöngukerfi eins og við gerum kröfu um er krefjandi og erfitt verkefni. Ég veit að víða er kallað eftir bættum samgöngumannvirkjum, og ráðherra og okkur hér á þingi er oft vandi á höndum þegar kemur að því að setja fé í samgöngumál. Hvernig er best að forgangsraða?

Í þessari umræðu í dag forgangsraða ég höfuðborgarsvæðinu fram yfir landsbyggðina. Það er ekki vegna þess að ég átti mig ekki á þeim brýnu og miklu verkefnum sem þar eru heldur vegna þess að ég tel fulla ástæðu til að höfuðborgarsvæðið fái óskipta athygli okkar núna. Ég er sem sagt að ítreka það að við erum að ræða samgöngumál höfuðborgarsvæðisins.

Á 148. þingi lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um fjármagn sem varið hefði verið á síðustu tíu árum til samgöngumála, skipt eftir kjördæmum. Svarið talar sínu máli. Rúmlega 159 milljarðar fóru til nýframkvæmda og viðhalds á vegum á árunum 2007–2017. Af þeirri fjárhæð fóru aðeins 17% til höfuðborgarsvæðisins. 17% fóru til svæðisins þar sem um 70% landsmanna búa, enn stærra hlutfall landsmanna starfar og allir landsmenn heimsækja reglulega þar sem hér er öll helsta þjónustan, auk þess sem nánast allir ferðamenn sem sækja landið heim fara um þetta svæði.

Ég er ekki að segja að 70% af þessu fé hefðu átt að fara á höfuðborgarsvæðið því að eins og ég sagði áðan er landið stórt og hér er dýrt að halda uppi góðum samgöngum. En getum við ekki öll verið sammála um að það er eitthvað rangt við 17%? Þá segja sumir að sveitarfélögin hafi samið af sér nýframkvæmdir með samningum um eflingu almenningssamgangna þar sem um 1 milljarður átti að renna til almenningssamgangna á ári hverju. Því er hægt að svara þannig til að það er vissulega rétt að sveitarfélögin gerðu samning, langþráðan samning um að ríkið kæmi með einhverjum hætti að rekstri almenningssamgangna. Milljarðurinn á ári skilaði sér aldrei heldur var upphæðin á bilinu 600–700 milljónir og að 900 milljónum. Og jafnvel þó að þessi tala sé tekin inn, og þá auðvitað styrkur ríkisins til almenningssamgangna á landsbyggðinni líka, hreyfir það aðeins lítillega við þessari prósentu.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að víðast hvar, ef ekki alls staðar, eru almenningssamgöngur samstarf tveggja stjórnsýslustiga, annaðhvort sveitarfélaga og fylkja eða sveitarfélaga og ríkis, eins og hér. Auk þess var í samkomulaginu listi yfir framkvæmdir sem samkomulag var um að fara ekki í á næstu árum þó að framkvæmdum sem ekki voru á listanum yfir frestanir, en voru á samgönguáætlun þess tíma, hafi ítrekað verið frestað. Nefni ég sem dæmi Arnarnesveginn.

Hvað sem þessu líður er ástæða til að gleðjast yfir þeim skrefum sem nú hafa verið stigin með samstarfi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með samgöngusáttmála svæðisins. Ég vona reyndar að þetta sé fyrsta skref í því að við tölum hér um sérstaka samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.

Sveitarfélögin á svæðinu hafa unnið á síðustu árum að svæðisskipulagi þar sem samgöngur á milli svæða skipta auðvitað sköpum. Það er þverpólitísk niðurstaða þeirrar vinnu og svo áframhaldandi vinnu sveitarfélaganna með ráðuneytinu og Vegagerðinni að lausnin á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu sé blönduð leið. Þannig er lögð áhersla á virka samgöngumáta með eflingu innviða fyrir gangandi og hjólandi ásamt veglegu framlagi til borgarlínu og eflingar almenningssamgangna, en líka með fjármagni til stofnvegakerfisins með ljósastýringum og mislægum gatnamótum þar sem það á við.

Ég er sammála þessari leið og finnst mikilvægt að valfrelsi sé raunverulegt í samgöngum. Fólk sem hér býr á að hafa raunverulegt val um hvernig það kýs að koma sér á milli staða. Þess vegna er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta og góða kosti í samgöngum, kosti sem geta verið raunveruleg samkeppni við einkabílinn fyrir þá sem það kjósa. Bættar samgöngur eru lífsgæðamál og við viljum auka lífsgæði fólks. Bættar samgöngur eru að sjálfsögðu mikið öryggismál og síðast en ekki síst eru samgöngur risastórt umhverfismál.

Ég vil því fá tækifæri til að ræða þennan samning við ráðherrann og beini eftirfarandi spurningum til hans: Hvaða áhrif mun samgöngusáttmálinn hafa á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum? Hvernig var og verður samstarfi við sveitarfélögin og aðra hagaðila háttað? Hvernig tengjast samgöngusáttmálinn og samgönguáætlun? Er skynsamlegt að til framtíðar verði horft til þess að við höfum tvær samgönguáætlanir, annars vegar höfuðborgarsvæðis og hins vegar landsbyggðar? Hversu raunhæft er að ætla að framkvæmdir sem tilgreindar eru í samningnum klárist á tilskildum tíma? Mun Sundabrautin verða að veruleika á tímabili samgöngusáttmálans og hvernig mun Sundabrautin nýtast höfuðborg og landsbyggð?