Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp en ég held reyndar, svo ég svari því strax, að við getum aldrei sett alla áhersluna óskipta hvorki á höfuðborgina né einn einstakan þátt. Ég held að við sem samgönguyfirvöld í landinu verðum að horfa á landið allt. Það er spurt um markmið og hvaða áhrif samgöngusáttmálinn muni hafa hér. Markmiðið er að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum ríkis og sveitarfélaga um sjálfbært, kolefnislaust borgarsamfélag og með því að stuðla samtímis að jafnari uppbyggingu allra innviða, stofnbrautanna, almenningssamgangnanna, hjóla- og göngustíganna, er unnið að því að við fyrirsjáanlegu fjölgun íbúa geti ferðavenjur þróast á hagfelldan hátt þannig að fleiri sjái hag sinn í að ferðast með öðrum hætti en í fjölskyldubílnum og með þeim umferðartöfum sem þegar eru og munu fara vaxandi. Allir græða á aukinni hlutdeild almenningssamgangna, göngu og hjólreiða og þannig dreifist umferðarálagið með markvissari hætti á fleiri innviði og bætir nýtingu þeirra allra.

Það hvernig samstarfið hefur verið við sveitarfélögin og aðra hagaðila og hvernig það verður hefur hingað til verið bæði í stýrihópi ríkis og SSH, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem og í sérstökum starfshópum sem hafa lagt drög að þeim skýrslum og því samkomulagi sem hér er til umræðu, en héðan í frá má segja að verkefnið færist í annan fasa sem kallar á formfastara samstarf út af framkvæmda- og undirbúningsfasanum. Þannig er ráðgert að stofnað verði sameiginlegt félag sem heldur utan um framkvæmdina samkvæmt samkomulaginu og gert er ráð fyrir að stjórn félagsins verði skipuð fulltrúum bæði ríkis og sveitarfélaga.

Hvernig tengist samgöngusáttmálinn samgönguáætlun? Jú, í samgönguáætlun er beint framlag ríkisins skilgreint, þ.e. 2 milljarðar á ári í 15 ár, til að standa straum af framkvæmdakostnaði vegna þeirra verkefna sem eru í núgildandi samgönguáætlun og eru jafnframt innan verkefna samgöngusáttmálans.

Spurt er hvort það sé skynsamlegt að hafa hér tvær samgönguáætlanir. Stutta svarið er: Nei. Lengra svarið er að ein lykilástæðan fyrir því að þetta er gert með þessum hætti er sú að mikilvægur hluti þessa samkomulags er þróun og sala Keldnalandsins sem ætlað er að standa straum af hluta kostnaðar við sáttmálann. Það er lagt til að stofnað verði fyrirtæki, félag sem hámarki verðmæti landsins með því að tryggja skilvirkar almenningssamgöngutengingar við það líka. Það var metið hagfelldast að stofna fyrirtæki sem héldi bæði utan um þróun landsins og fjármögnun og þann hluta sem það er.

Verkefnin eru þar að auki að mörgu leyti flóknari en verið hefur og kalla þar af leiðandi á mjög nána samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Sérstaklega má þar nefna uppbyggingu borgarlínu sem liggur um allt höfuðborgarsvæðið á samgönguásum á bæði stofnbrautum og sveitarfélagagötum og framkvæmdir eru í mörgum tilvikum samtvinnaðar, þ.e. á sama tíma. Það má líka nefna aukna áherslu á innviði virkra samgöngumáta, göngu og hjól, sem geta einnig verið flóknar og dýrar stokkalausnir þar sem þarf öðruvísi nálgun en við hefðbundna samgönguáætlun. Þess vegna var ákveðið að fara þessa leið í þessu tilviki.

Í samgönguáætlun verða líka nokkur önnur flýtiverkefni sem eru smærri í sniðum, vegurinn yfir Öxi, vegurinn yfir Hornafjarðarfljót, brú yfir Ölfusá, svo dæmi séu tekin, en þau eru aftur á móti fjármögnuð með gjaldtöku sem á vissan hátt má kalla flýtigjöld. Þau eru merkt með sérstökum hætti í samgönguáætlun, ekkert ósvipað og samgöngusáttmálaverkefnið.

Hversu líklegt er að þessar framkvæmdir klárist á tilskildum tíma? Því má svara til að auðvitað eru allar framkvæmdaáætlanir háðar ákveðinni óvissu. Sú sem hér birtist er ekkert undanskilin. Það eru mörg atriði sem enn á eftir að útfæra og klára sem tengjast skipulagsmálum, hönnun, útfærslu einstakra framkvæmda, þannig að það er ljóst að sú tímalína sem þar birtist gæti breyst. Stóra myndin er hins vegar sú að í samkomulaginu er lagt til að þessi framkvæmdapakki verði kláraður á tímabilinu á tilsettum tíma og þau áhrif sem hann á að hafa á umferð á svæðinu þótt eitthvað færist til innan þess tíma. Til þess hafa verið skilgreindar fjármögnunarleiðir sem og samstarfsform.

Varðandi Sundabrautina verður hún að veruleika á tímabilinu. Ég mun á næstu dögum leita eftir samstarfi við Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir og SSH um að útfæra og skoða nánar þá tvo valkosti sem starfshópurinn um Sundabraut lagði til. Þegar það liggur fyrir, og náist samkomulag við hagsmunaaðila, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að koma því verkefni af stað þannig að það geti orðið að veruleika á þeim tíma.

Hvaða áhrif mun Sundabrautin hafa hér? Hún mun auðvelda aðgengi þeirra sem koma af Vestur- og Norðurlandi inn á höfuðborgarsvæðið með styttingu í vegalengd og ferðatíma og styrkja þannig vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins og auðvelda íbúum frá Akranesi og Borgarnesi að sækja vinnu eða skóla daglega. Hún mun jafnframt stytta flutningsleiðir frá Vesturlandi og Norðurlandi, og auðvitað í hina áttina líka, jafnvel af Kjalarnesi. Hún mun einnig færa þessa flutninga frá því að fara í gegnum Mosfellsbæ. (Forseti hringir.) Loks mun hún tengja Vesturland og Norðurland betur við Keflavíkurflugvöll um Reykjanesbrautina þannig að (Forseti hringir.) áhrifin innan höfuðborgarsvæðisins eru fyrst og fremst með því að með henni fá íbúar austan Elliðaárósa nýja tengingu við vesturborgina sem léttir umferðarálagi af öðrum stoðum, svo sem Gullinbrú og Ártúnsbrekku, og svo yrði hún sannarlega kærkomin viðbót skyldu menn þurfa að yfirgefa borgina í flýti, sem raunveruleg viðbótarflóttaleið.