150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu sem kallast svo skýrlega á við framtíðina. Við jafnaðarmenn tökum undir meginatriðin í þessum samgöngusáttmála, það sem snýr að framkvæmdunum. Þær eru nauðsynlegar. Fullyrt er að með óbreyttum framkvæmdahraða taki verkefnið ella 50 ár og þess vegna verðum við að ráðast í uppbyggingu með miklum krafti.

Það er gríðarlega mikilvægt að auka hlut almenningssamgangna stórlega og breyta ferðavenjum enda er það lykilatriðið til að bregðast við loftslagsbreytingum og þar getum við gert svo miklu betur.

Búið er að skilgreina vel hvernig helmingurinn af þessum framkvæmdum verður fjármagnaður. Afgangurinn er enn í þokunni, talað er um sérstaka fjármögnun. Hvað þýðir það nákvæmlega? Útfærslan skiptir öllu máli.

Ríkið talar um að selja eignir upp í kostnað. Allt er þetta óljóst og almenningur kallar eftir meiri upplýsingum um þessi samgönguplön frá stjórnvöldum. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því að félagið sem stofnað verður um framkvæmdirnar geti innheimt svonefnd flýti- og umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins en þar með er ekki sagt að rétta leiðin til að fjármagna uppbyggingu og framkvæmdir sé með veggjöldum sem leggjast auðvitað þyngra á tekjulægri hópa og fólk sem neyðist kannski til að búa utan miðsvæðis. Við erum ekki viss um að þetta sé rétta leiðin en um það munum við fjalla í þinginu í náinni framtíð. Við þurfum að endurhugsa gjaldtökuna af umferð í tengslum við orkuskipti og það er ekki óeðlilegt. Undan því verður ekki vikist og það er hægt að fjármagna þetta á sanngjarnari hátt. Við þurfum að ráðast í meiri vinnu, meiri greiningu, fá sérfræðinga að borðinu, fá fólk af öllu landinu að borðinu, ekki bara sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, (Forseti hringir.) og skoða þetta í heildarsamhengi.