150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég get fagnað ýmsu í þessu samkomulagi en það yrðu stór tíðindi ef einhverjar útgáfur af þeim veggjöldum sem hafa verið kynntar í þessum pakka yrðu samþykktar. Ég er ekki alveg á jákvæðu nótunum hvað það varðar. Það sem mig langar til að spyrja sérstaklega um er hvort samkomulagið standi ef ríkið útvegar fjármagn með öðrum hætti en með sérstakri fjármögnun veggjalda. Segjum sem svo að eftir næstu kosningar verði önnur ríkisstjórn sem vilji ekki innheimta veggjöld og er það þá brot á samkomulaginu ef sú ríkisstjórn útvegar sama fjármagn með öðrum aðferðum? Það er einföld spurning sem ég vil fá svar við.

Annað sem ég hjó eftir í framsögunni var spurning sem mér fannst mjög áhugaverð, spurningin um tvær samgönguáætlanir. Ég hef spurt einmitt aðila úr öllum landshlutunum sem hafa komið á fund umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun þess landshluta, að þau vinni sjálfstætt að eigin samgönguáætlun. Það sama ætti að sjálfsögðu að eiga við á höfuðborgarsvæðinu. Það væri mjög eðlilegt ef landshlutasamtökin vissu u.þ.b. hversu miklum peningum þau ættu von á í næstu heildarsamgönguáætlun Alþingis og þá gætu þau einfaldlega raðað upp sinni samgönguáætlun í samráði við sveitarfélög á því svæði á sínum forsendum. Þá getum við borið saman hvaða verkefni í samgönguáætlunum landshlutanna ná inn í stóru samgönguáætlun þingsins og af hverju þar á milli væri munur. Af hverju ætti þingið að leggja til annars konar framkvæmdir en landshlutasamtökin leggja til á móti í samráði sveitarfélaganna? Það er nokkuð sem mér þætti áhugavert að kanna í kjölfarið og ég kalla einfaldlega eftir meira samráði sem það fyrirkomulag myndi búa til því að í tilbúningi þessa samkomulags og (Forseti hringir.) þessa sáttmála var tvímælalaust ekki mikið samráð.