150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Skrifuð var saga sem heitir Sagan endalausa. Hún var kvikmynduð. Hér erum við með aðra sögu, samgönguáætlun höfuðborgarsvæðisins Hún hefur líka verið kvikmynduð, rosalega flott rödd sett undir og sýnd glansmynd af því hvernig við ætlum að leysa þetta. Eigum við að trúa þessu? Ekki ég. Ég flutti í Hafnarfjörð fyrir nærri 35 árum og fór að huga að byggingu. Þá sá ég að það átti að byggja ofanbyggðarveg. Ég hugsaði: Vá, flott. Hvenær kemur hann? Hann kemur rétt bráðum, var mér sagt. Mér leist mjög vel á það. Svo ákvað ég að byggja ekki og tíminn leið, ég kíkti á Vellina og flutti þangað. Þá fór ég að tékka á ofanbyggðarveginum. Umferðin var farin að stíflast. Er hann ekki á dagskrá? Jú, jú, hann er á leiðinni, var mér sagt. En það eru komin 35 ár og hann er hvergi. Hann er hluti af sögunni endalausu. Það er búið að blása hann af vegna þess að Garðabær er búinn að eyðileggja vegarstæðið sem átti að nýtast fyrir hann. Ég er með lausn á því, við bara höldum áfram að gera þetta, borum okkur undir Garðabæ og leysum málið með því að tengja okkur við Breiðholtsbrautina.

Ég hef farið víða um Evrópu og ég held að við séum með heimsmet í því að höfuðborgarsvæðið er með eina sveitarfélagið sem gerir þá kröfu að það þurfi að fara í gegnum öll sveitarfélögin áður en maður kemst vestur á land, nema eitt, Seltjarnarnes. Ég held að það hafi bara gleymst að setja veginn þangað.

Við eigum stöðugt við furðulega hluti. Ég hef enga trú á því að við leysum þetta en ég vona heitt og innilega að við tökum okkur á og fáum einhverja lausn í þessu máli vegna þess að annars verður þetta okkar arfleifð, enn ein sagan endalausa. Við gætum kannski gert mjög góða kvikmynd um það.