150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að hefja hér umræðu um samgöngur. Það er mikilvægt fyrir okkur að ræða þennan mikilvæga málaflokk oft og örugglega. Ég fagna því einnig að hér sé kominn af stað samstarfssáttmáli til að efla samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem og á landinu öllu. Mér finnst þetta hafa skort athygli þingsins og fjárveitingavaldsins undanfarin ár og fagna því þess vegna að verið sé að leita lausna, finna leiðir til að koma áfram fjölbreyttum samgöngubótum, samgöngum fyrir alla. Þær verða að vera fjölbreyttar og gagnast öllum.

Mér finnst mikilvægt að fram komi að þarna er verið að komast að sátt um að leggja samgönguása þannig að það verði mislægur samgönguás í gegnum höfuðborgarsvæðið, að það séu forgangsakreinar og annað slíkt, þannig að menn komist hraðar á milli bæjarfélaga og í gegnum höfuðborgina. Ég vil líka taka fram að þessi sáttmáli snýst ekki um rekstur á almenningssamgöngum. Það er mikilvægt að það komi fram.

Það er margt gott í sáttmálanum sem er vert að nefna og gæti sýnt fram á áhrif hans mjög fljótt. Það er hægt að ná áhrifunum mjög hratt fram ef báðir aðilar standa við sínar skuldbindingar. Þar vil ég fyrst nefna ljósastýringuna. Það er talað um að fara í sameiginlega ljósastýringu á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort eitthvað sé til í þeim áhyggjum sem ég heyri hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, að Reykjavíkurborg sé að stíga skref í sinni ljósastýringu sem geti tafið heildarljósastýringuna á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki vel ef menn ætla strax að fara að vinna hver í sínu horni en ekki allir saman í að ná almennilegri ljósastýringu (Forseti hringir.) með Vegagerðinni og sveitarfélögunum.