150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, þessa umræðu um samgöngusáttmála um höfuðborgarsvæðið og hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans. Það er ástæða til að fagna þessu tímamótasamkomulagi. Mig langar að nefna tvennt í því samhengi, annars vegar er flýting framkvæmda sem svo sannarlega er þörf fyrir og að ná að framkvæma á 15 árum það sem ella gæti tekið 50 ár með hefðbundinni skipan framkvæmda og fjármögnun. Hins vegar er samstaðan sem birtist í þessu samkomulagi við ríkið sem er ekki sjálfgefið og kannski er markverðast þegar verið er að ræða fjármögnunina í þessu að sáttmálinn kallar ekki sérstaklega á auknar álögur á bifreiðar eða umferð umfram þær breytingar sem óhjákvæmilega eru að verða til framtíðar í heildarmynd gjaldtöku til að fjármagna vegakerfið. Það er mikilvægt að halda þessu til haga.

Við Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi höfum ályktað um sáttmálann. Kjördæmaþingið fagnaði m.a. átaki í samgöngumálum. Að sjálfsögðu vorum við hæstánægð með okkar hæstv. samgönguráðherra og við fögnum þessum metnaðarfulla sáttmála. Þar eru dregin fram fjölmörg mikilvæg verkefni, m.a. flýting lokaáfanga Arnarnesvegar milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Svo er breikkun hringvegar milli Bæjarháls og Vesturlandsvegar á fyrsta tímabili endurskoðaðrar samgönguáætlunar öryggismál sem og flýting framkvæmda við Reykjanesbraut, svo eitthvað sé nefnt, og enn fremur aukning á fjármagni til framkvæmda á Reykjanesbraut frá Álftanesvegi að hringtorginu við Lækjargötu í Hafnarfirði. Þessar framkvæmdir munu allar auka umferðaröryggi, auk þess sem pakkinn í heild sinni mun stuðla að, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, greiðari, skilvirkari og hagkvæmari samgöngum, vinna í takt við loftslagsmarkmið og draga úr losun með greiðari almenningssamgöngum, uppbyggingu hjóla- og göngustíga og vinna þannig að hagfelldari þróun ferðavenja. (Forseti hringir.)

Ég verð að segja í lokin, virðulegi forseti, að það er tímabært að Sundabraut verði að veruleika.