150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Sem betur fer er ýmislegt gott í þessari viljayfirlýsingu og þar horfi ég fyrst og fremst til þeirra áforma sem uppi eru um stórframkvæmdir á stofnbrautakerfi höfuðborgarinnar. Þetta er hluti af innviðakerfi höfuðborgarinnar sem hefur verið látið reka á reiðanum í kjölfar þess samkomulags sem gert var 2012 og hefur orsakað það að allt of hægt hefur gengið að bæta flæði umferðar innan höfuðborgarsvæðisins.

Ég verð eiginlega að koma inn á atriði sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi rétt áðan og beindi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra. Mér barst til eyrna fyrr í dag að raunin væri sú að Reykjavíkurborg væri komin af stað í sjálfstætt útboð hvað ljósastýringar varðar. Það gæti valdið því að sá árangur sem mögulegur er af sameiginlegri ljósastýringu á grundvelli þessarar viljayfirlýsingar náist ekki fyrr en seinna eða verði mögulega minni en ella hefði getað orðið. Ef mögulegt væri að ná fram a.m.k. 25–30% auknu flæði með bættri ljósastýringu er það aðgerð sem þarf að grípa til strax.

Svörin sem vantar eru býsna mörg sem og púslin sem á eftir að sýna í þessari mynd. Ég held að búið sé að setja um 7 milljarða í Strætó á síðustu sjö árum þar sem ætlunin var að ná verulegum árangri hvað hlutfall ferða á höfuðborgarsvæðinu varðar. Gott ef talan er ekki upp á tvo aukastafi en samningurinn hljóðaði upp á 1 milljarð á ári. (Gripið fram í.) Þetta verður býsna dýrt námskeið ef við ætlum okkur, án þess að vita (Forseti hringir.) hvar við ætlum að lenda málinu, að setja á fimmta tug milljarða í lítt útfært mál eins og hér um ræðir. Ég geri kröfu um að við sjáum betur til lands áður en þetta verður meitlað í stein.