150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:20]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Um 63% Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu sem er 1% af flatarmáli landsins. Ef við stækkum síðan svæðið yfir í stórhöfuðborgarsvæðið og miðum við frá Hvítá í vestri til Hvítár fyrir austan fjall eru tæplega 80% af þjóðinni á því svæði. Sú staða er einstök á heimsvísu og því er ekki rétt að segja að Ísland sé dreifbýlt land eins og oft er gert. Ísland er í raun eitt mesta borgríki í heimi. Við erum í 5. sæti í heiminum hvað þetta varðar og Ísland er þar við hliðina á löndum eins og Singapúr, Kúveit, Barein, Katar og Bahamaeyjum. Auðvitað þarf uppbygging innviða, svo sem samgangna, að verða um allt land en hún þarf einnig að taka mið af þeirri staðreynd að 80% af þjóðinni búa á mjög þröngu horni landsins. Samgöngusáttmálinn er að sjálfsögðu mjög jákvætt skref í þá átt og er uppbygging almenningssamgangna eins og borgarlínu ekki síður mikilvæg. Ein mesta launahækkun sem við getum fært fólki er að gera því kleift að eiga einungis einn bíl eða í sumum tilfellum engan bíl. Það að reka einn bíl kostar um tvenn mánaðarlaun á ári og það að sleppa við þennan bíl myndi losa um tvenn mánaðarlaun. Ef um tvo bíla er að ræða eru það fern mánaðarlaun. Viljum við virkilega vinna fyrir bílana okkar í fjóra mánuði á ári?

Síðan eru að sjálfsögðu heilmikil umhverfisáhrif vegna bifreiða en loftslagsmálin eru mál málanna (Forseti hringir.) og verða það á meðan við lifum. Við höfum ekki efni á því að slá slöku við í samgöngumálum, hvorki út frá efnahag né umhverfi.