150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna vel samkomulaginu sem við ræðum hér og gert var á milli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára. Ég verð að játa að ég var persónulega búin að bíða svolítið lengi eftir samkomulaginu en tel að þær heildaráherslur sem þar er að finna á framgang umhverfisvænna samgöngumáta og staðfestingu á vilja allra hlutaðeigandi aðila til að skuldbinda fjármuni í umhverfisvænar samgöngur séu afskaplega góðar.

Eins og við vitum eiga tæpir 50 milljarðar að fara í borgarlínu og eflingu almenningssamgangna á tímabilinu. 8,2 milljarðar eiga að renna í fjölgun hjólreiðastíga og göngustíga, göngubrýr og undirgöng. Þessar skuldbindingar skipta ótrúlega miklu máli og er það afskaplega gott og þarft. Þó að sum okkar myndu vilja sjá meiri fjármuni setta í almenningssamgöngur til að draga úr loftmengun og standa enn betur við alþjóðlegar skuldbindingar okkar þegar kemur að samdrætti í útblæstri er samt gríðarlega mikilvægt að fastnegla ákveðnar fjárhæðir í þessar tegundir samgangna. Og þó að sum okkar myndu vilja sjá róttækari aðgerðir til að draga verulega úr umferð einkabílsins en ekki greiða götu hans með breiðari götum, betra flæði og fleiri mislægum gatnamótum, sem er að finna í þessum sáttmála, er sáttmálinn eins og fram hefur komið í umræðunum gríðarlega mikilvægt tæki til að efla almenningssamgöngur meira og hraðar, í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir betri lífsgæðum í formi minna svifryks.

Ég ítreka ósk mína til hæstv. ráðherra um áætlun um almenningssamgöngur og enn fremur vil ég ljá máls á því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir málshefjandi spyr, hvort það sé skynsamlegt að til framtíðar verði horft til þess að við höfum tvær samgönguáætlanir, (Forseti hringir.) annars vegar höfuðborgarsvæðis og hins vegar landsbyggðar. Ég styð þær hugmyndir hv. þingmanns að hafa sérstaka samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem áætlað er að um 75–85% af allri umferð á Íslandi sé að finna. (Forseti hringir.) Við málshefjandi erum sammála um þetta og þótt hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hafi lýst andstöðu sinni við þær hugmyndir geri ég mér vonir um að ráðherra snúi af þeirri braut (Forseti hringir.) og gangi í lið með okkur hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur við þessar hugmyndir.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk. Þau eru þekkt.)