150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða samgönguáætlun á höfuðborgarsvæðinu, söguna endalausu. Það sem enn frekar staðfestir að þetta verði enn ein sagan endalausa er Sundabraut. Samgönguráðherra hafði meira að segja áðan efasemdir um hana, „verði hún að veruleika á tímabilinu,“ sagði hann orðrétt. Hann trúir því ekki sjálfur að hún verði að veruleika. (Gripið fram í.) Ég skil það vel vegna þess að við höfum ekki fengið svar við einföldum spurningum sem ég hef áður spurt. Ég ætla að spyrja einfaldrar spurningar: Hvað á að gera við 50.000 bíla þegar settur verður vegur í stokk í Garðabæ og í Hafnarfirði? Eiga þeir að fara í gegnum Hafnarfjörð? Hvert á að fara með þá?

Annað enn þá verra mál verður þegar við setjum Miklubraut í stokk. Þar eru yfir 100.000 bílar. Hvað á að gera við þá? Hvert á að senda þá? Verðum við ekki að vera búin með Sundabrautina áður? Verðum við ekki að vera búin með ofanbyggðarveginn okkar? (Gripið fram í: Taka strætó.) Eða setja alla í strætó. Það væri frábær lausn. (Gripið fram í.) Við vorum með hreppaflutninga áður fyrr en ég held að það að þvinga fólk í strætóflutninga muni aldrei ganga upp. Þess vegna segi ég að við verðum að finna lausn og hún er sú að sjá til þess að umferðin gangi greiðlega og að við sjáum til þess líka að umferðin þurfi ekki að fara í gegnum öll sveitarfélög bara til að komast vestur á land ef maður kemur frá Keflavík. Það er fáránlegt og er okkur til háborinnar skammar. Að við skulum vera búin að rífast um þetta í 40–50 ár og hafa engar lausnir sýnir að við erum ekki lausnamiðuð og ætlum ekkert að vera það.

Þess vegna er spurningin: Er verið að þvinga fólk til að pakka einkabílnum? Það virðist vera, bæði vegna þess að það virðist vera mikið vafamál að Sundabrautin verði gerð og að það virðist vera vafamál hvernig eigi að leysa úr því þegar á að fara að gera allar þessarar umferðarbætur. Það virðist enginn vera með neina lausn heldur bara sömu gömlu söguna endalausu.