150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og þingmönnum fyrir að taka vel undir og í flestöllum tilvikum af jákvæðni. Ég skil reyndar ekkert í að menn séu ekki meira sammála hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé þegar hann segir: Loksins, loksins.

Ég get alveg sagt að ráðherrann er stoltur af að hafa náð því að fá öll sveitarfélögin sameinuð í að ná þessum samgöngusáttmála fram. Mér fannst seinni ræða hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar mun skárri en sú fyrri því að það var ekki heil brú í þeirri fyrri, síst í ljósi þess sem hann sagði allan síðasta vetur.

Það sem við stöndum frammi fyrir eru framkvæmdir fyrir um 120 milljarða og á landinu öllu um 190 milljarða. Staðreyndin er sú að umferð á þjóðvegunum á höfuðborgarsvæðinu er 30–40% af heildarumferðinni á landinu. Við þurfum að hugsa miklu stærra en bara um höfuðborgarsvæðið, en hér í dag erum við að ræða hvernig við ætlum að halda utan um það. Við erum ein þjóð í þessu landi í mínum huga og þess vegna verða ekki tvær samgönguáætlanir. Hún verður ein. En við þurftum að taka sérstaklega á þessum vanda.

Það sem varðar ljósastýringuna sem hér hefur verið rætt um verð ég að segja alveg eins og er að ég skil ekki hvaðan sú umræða kemur. Vegagerðin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, SSH, hafa unnið sameiginlega að því að fara í útboð, hafa verið með greiningarvinnu, einmitt í anda þessa sáttmála sem allir eru sammála um, að bjóða út heilann, stýrikerfið í ljósastýringunni. Það þýðir ekki að á sama tíma þurfi ekki að reisa ljósastaura og setja upp skynjara. Menn mega ekki rugla því saman. Ég skil ekki hvernig slík umræða (Forseti hringir.) datt inn í þennan sal.

Það er eitt sem ég vil enda á. (Forseti hringir.) Hér er áætlunargerð, sýn og markmið. Við höfum auðvitað ekki öll svörin þegar við leggjum af stað í áætlunargerð með sýn og markmið. (Forseti hringir.) Við tökum eitt eða tvö ár í vandaða útfærslu til að koma þessu í framkvæmd. Og trú þín mun vaxa, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. [Hlátur í þingsal.]