150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:48]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er ekki einfaldur og það er einsýnt að skoða þarf verklagið í heild sinni. Það er brotalöm í kerfinu en ég get samt ekki fellt dóm yfir því hvort það er Útlendingastofnun, ríkislögregla eða ríkislögreglustjóri. Kannski þurfa þessar stofnanir að samræma verklag, jafnvel taka fleiri aðila inn í það verklag, eins og t.d. þau heilbrigðisyfirvöld sem hafa beina aðkomu að málum Útlendingastofnunar, en ég get ekki séð annað en að allir þessir aðilar séu tilbúnir til þess að vanda til verka.

Ég vil líka segja að það er að mínu viti alltaf nauðsynlegt að skoða aðgerðir og aðferðir og það eru margar spurningar sem vakna í þessu tiltekna sambandi. Ein þeirra snýr að því hvort rétt sé að gefa út svokallaða 48 tíma reglu, líkt og Norðmenn gera, með það að markmiði og aðeins í því markmiði að senda skilaboð til þeirra sem nýta sér neyð fólks til þess eins að græða á aðstæðum. Að því sögðu ber okkur auðvitað að taka á móti öllum þeim sem þurfa á vernd að halda og okkur ber að hraða málsmeðferð eins og hægt er.