150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:55]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er okkur alltaf hollt að ræða málefni innflytjenda og vil ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir það tækifæri. Við getum þá velt fyrir okkur hvar við viljum standa og hvert við viljum stefna. Heyrst hefur úr þessum stól og í fjölmiðlum að það mál sem var í deiglunni í gær sé á ábyrgð núverandi stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum. Ég vísa slíkum athugasemdum til föðurhúsanna en það er gott að taka samtalið. Þeim hefur vissulega fjölgað sem hér sækja um alþjóðlega vernd og útgefnum leyfum hefur líka fjölgað. Á árinu 2018 voru þau 160 en eru komin upp í 216 á þessu ári. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að það eigi að taka á þessu og áhersla á að lögð verði til grundvallar mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar og áhersla lögð á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd.

Í stjórnarsáttmálanum er líka talað um að setja á fót þverpólitíska pólitíska þingmannanefnd til að meta framkvæmd og eftir atvikum endurskoða hana. Þessi nefnd hefur ekki verið skipuð og er því ekki farin af stað. Þarna þurfum við að gyrða okkur í brók og setja hana saman til að hún geti farið að vinna.

Virðulegi forseti. Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin. Við setjum reglur og lög og viljum að farið sé eftir þeim. En mannúð og gestrisni þarf ekki að setja í lög. Þegar við framfylgjum reglum og lögum eigum við að hafa mannúð að leiðarljósi. Það má ekki gefa afslátt af henni. Það á við um okkur öll sem meðhöndlum útlendingamál.