150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag ræddi ég við hæstv. dómsmálaráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um mál barnshafandi konunnar sem var vísað úr landi. Ég óskaði eftir því að hún setti sig í hennar spor. Ég spurði hvort hæstv. ráðherra fyndist að farið hefði verið varlega í þessu máli. Það sem ég var í raun og veru að fiska eftir var hver ætti að fá að njóta vafans. Er það skilvirkni kerfisins sem hæstv. ráðherra verður svo tíðrætt um eða er það heilsa þungaðar konur sem er komin langleiðina á leið í áhættumeðgöngu? Hver á að fá að njóta vafans? Er það kerfið sem hæstv. ráðherra reynir að klína á allan þingheim? Það held ég ekki. Það er mjög skýrt í lögum um útlendinga að einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu eigi ýmis réttindi, m.a. rétt á mæðravernd. Það er heldur ekki hægt, eins og hæstv. ráðherra, Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóri gera, að skýla sér á bak við það að eindregin tilmæli ljósmæðra um að hún ætti erfitt með langt flug hafi ekki verið nógu skýr til að senda hana ekki í 19 klukkutíma ferðalag. Þetta kalla ég algjöran fyrirslátt og bara frekar fyrirlitlegt. Ég held að hver maður geti skilið það að 19 tíma ferðalag geti kallast langt flug. Þess vegna spyr ég aftur: Hver á að njóta vafans? Er það barnshafandi kona eða rotið kerfi?