150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða mjög viðkvæmt og leiðinlegt mál. Því miður verður að segjast eins og er að við erum með stórfurðulegt kerfi. Við erum með kerfi þar sem við tökum á móti kvótaflóttamönnum og annað sem tekur á móti hælisleitendum. Þarna erum við með tvö gjörólík kerfi, annað sem tekur við fólki og verndar það, byggir upp, gefur því húsnæði, réttindi og annað. Það er kvótaflóttamannakerfið. Síðan erum við með hælisleitendakerfið þar sem við veitum fólki rétt til búsetu í landinu en höfum ekkert til að styðja við það, engar áætlanir til að sjá til þess að þetta fólk geti lifað með reisn, ekki frekar en aðrir í þjóðfélaginu sem minna mega sín. Við erum með svo stórfurðulegt kerfi að við erum með búsetuskerðingarkerfi að því leyti til að við veitum jafnvel hælisleitendum rétt til að búa í þessu landi en þeir fá ekki réttindi. Þeir eru kannski komnir á þann aldur að þeir ná að vinna í 10–20 ár en þá fá þeir bara brot af þeim réttindum, t.d. eftirlaunum, sem aðrir njóta. Við erum oft að dæma fólk til þess að lifa af kannski 60.000–70.000 kr.

Ég segi fyrir mig: Ef við erum með svona lög og reglur eigum við að breyta þeim. Við eigum að taka þetta til greina og við eigum að stokka upp í þessu kerfi. Því miður er búið að byggja þetta kerfi svona upp og það er okkar verk hér á þingi. Við byggðum þetta kerfi upp — ekki ég, að vísu, en þeir sem voru hér á undan. Ég hef aldrei verið í ríkisstjórn og veit ekki hvernig þetta er en þetta kerfi hefur verið byggt upp svona í áratugi. Þetta eru afleiðingarnar sem við erum að verða vör við í dag þannig að ef okkur er illa við kerfið er það meiri hluti á Alþingi sem getur breytt því.