150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það mál sem varð þess valdandi að við stöndum hér og ræðum innflytjendamál í dag er skýrt dæmi um hvernig ekki á að vinna hlutina, skýrt dæmi um það hvernig mannúðarsjónarmið eru látin róa, hvernig mennskan gleymist. Það þarf ekki að rýna í læknisvottorð eða velta fyrir sér tæknilegum vinnubrögðum lögreglu, Útlendingastofnunar eða ráðuneytis í þessu samhengi. Það blasir við hverjum sem það vill sjá.

Það vekur hins vegar líka athygli á öðru sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom að í ræðu hér fyrr, sem er einmitt kannski rót þess vanda sem við glímum við í innflytjendamálum: Af hverju sækir hingað svo stór hópur fólks frá löndum sem við skilgreinum sem örugg lönd og sækir um alþjóðlega vernd? Það er vegna þess að samhliða því sem við opnuðum vinnumarkað okkar fyrir íbúum innan Evrópska efnahagssvæðisins harðlokuðum við vinnumarkaðnum fyrir öllum öðrum. Það má benda á fjölda fólks sem hingað hefur flutt, starfað og alið upp börn sem hafa vaxið úr grasi, sem komst hingað til lands á sínum tíma vegna þess að það voru einhver tækifæri til þess, frá löndum sem voru utan hins sameiginlega markaðar á þeim tíma. Það er enginn möguleiki á því fyrir hópa eins og frá Albaníu og fleiri löndum í dag. Þetta þekkja allir þeir sem vinna m.a. að því að fá hingað til lands sérfræðinga. Það er mjög flókið, erfitt og snúið ferli og er kerfi sem brýtur á réttindum einstaklinga því að það setur innflytjendur frá þessum löndum í mjög viðkvæma stöðu gagnvart vinnuveitendum sem halda á atvinnuleyfi viðkomandi vegna þess hvernig við höfum harðlæst okkar vinnumarkaði, hvernig landamæri okkar eru í raun og veru víggirt og lokuð. Það ættum við líka að taka til skoðunar. Við gætum hæglega breytt því (Forseti hringir.) einmitt til að taka á þeim vanda sem hér er oft bent á, að það er fólk að sækja hér um hæli sem ætti hæglega að geta sótt hér um atvinnuleyfi en fær ekki tækifæri til.