Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:03]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu og hófstilltu umræðu sem hefur farið fram um þetta í dag, a.m.k. undir þessum dagskrárlið. Maður hefði jafnvel getað búist við öðrum tóni, miðað við atganginn sem varð fyrst í málinu. Ég held ekki að það sé ástæða til að tala um þetta mál með þeim gassagangi sem varð í upphafi málsins. Við erum að framfylgja lögum sem, ef ég man rétt, 46 þingmenn greiddu samhljóða atkvæði með og það er ekki lengra síðan en í júní 2016. Það er varla um það deilt, held ég, a.m.k. ekki almennt séð, að Albanía, í þessu tilviki, á sér sess á lista yfir það sem við köllum örugg ríki. Þarna er stjórnarskrárbundið lýðræði, Albanía er aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og mannréttindasamtök, alþjóðleg og þar heima fyrir, vinna þar án tálmana. Þetta er óumdeilt þannig að út af fyrir sig er brottvísunin sjálf varla umdeild.

Það var ekki þannig að það kæmi einhvers konar læknisfræðilegur úrskurður um að viðkomandi kona gæti ekki ferðast. Í seinna læknisvottorðinu, sem oftast er vísað til hér, stendur að ferðalagið gæti reynst henni erfitt, hún sé með verki í stoðkerfi og þar fram eftir götunum. En hvað (Forseti hringir.) þýðir það í þessu samhengi? Þýðir það að það er erfitt eða óþægilegt eða þýðir það hættulegt? (Forseti hringir.) Um það getur verið deilt. Ef við viljum hafa annað verklag á þessum hlutum en hér virðist framkvæmdin, sem er fullkomlega á grundvelli laganna, þurfum við að ræða það. En gassagangurinn í umræðunni eins og hún var í upphafi er óþarfi.