150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[17:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir þá umræðu sem hér er í gangi. Hún er mikilvæg og af hinu góða. Mér hefur þótt vanta eitt svolítið í umræðunni hér í dag. Það er réttur barnsins. Við ræddum mikið réttindi ófæddra barna á síðasta þingi þegar mál er tengdust svokölluðu þungunarrofi eða fóstureyðingu voru til umræðu. Ég vil ekki fara út í að ræða þetta einstaka mál sem slíkt en það verður auðvitað að taka til greina að það skiptir máli hversu lengi einstaklingurinn hefur verið hér á landi. Það skiptir máli hvort hann hefur verið hér í hartnær ár eða jafnvel innan við mánuð. Ef tíminn er stuttur verð ég að viðurkenna að það verður auðvitað að horfa svolítið til ábyrgðar móður í því tilviki því það er nú þannig að Albanía er sem betur fer ágætlega í sveit sett þegar kemur að lífslíkum nýfæddra barna. Ungbarnadauði þar er sem betur fer ekki hár. Ég leit nú bara á nokkur dæmi. Hér á Íslandi er hann sem betur fer með því lægsta sem við þekkjum, tvö börn af hverjum 1.000. Þýskaland er í tæpum fjórum, Albaníu í rúmum átta, Indland í 32, þannig að ekki var verið að flýja slæma fæðingarþjónustu eða eitthvað þess háttar. Þannig að ég held að þó að það sé auðvitað viðkvæmt að ræða hvert og eitt mál fyrir sig verði að skoða hvernig er í pottinn búið. Og þarna held ég að við verðum að horfa til þess að réttur barnsins hefur lítið verið ræddur (Forseti hringir.) í dag þó að hann eigi sannarlega heima í þessari umræðu — þó að til séu þingmenn sem telja réttindi barns ávallt víkja fyrir réttindum móður.